148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar stórt er spurt. Kannski fyrst að þessu sem hv. þingmaður kom inn á um að það væri erfitt að reikna nákvæmlega út hversu margir milljarðar þetta væru. Milljarðarnir sem ég reikna út byggja náttúrlega á þeirri forsendu að við séum með sambærilega köku frá ári til árs, þ.e. það séu ekki neinar grundvallarbreytingar á upphæðunum og þannig reiknum við okkur fram til ársins 2022.

Í áliti meiri hluta fjárlaganefndar eins og hv. þingmanni er kunnugt um er komið inn á grunngildin og raunar í tillögunni sjálfri. Eins og þingmanninum er kunnugt um þá eru þessi hugtök, þessi grunngildi sem hann nefnir, ég er hérna með minnihlutaálit hv. þingmanns, stöðugleiki, varfærni, sjálfbærni o.s.frv., tiltölulega gildishlaðin. Þess vegna er kannski erfitt að setja nákvæmlega fingur á það, er það að ríkissjóður skili afgangi upp á 1% á einu ári nægilega mikil sjálfbærni? Er það nægilega mikill stöðugleiki?

Ég held að þrátt fyrir að í lögunum, eins og kom fram hjá þingmanninum, sé gert ráð fyrir að miðað sé við þessi grunngildi þá er alltaf voðalega erfitt að setja fingurinn á það og svara því hvort við vorum akkúrat að fara eftir þeim núna.