148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með grunngildin þá er ákveðin grunnskýring á þeim í lögum um opinber fjármál, en stjórnvöld geta gert sértækari skilgreiningar á þeim. Svo setja þau stefnu og útskýra hvernig stefnan uppfyllir grunngildin. Það er þessi útskýring sem ég finn ekki, greinargerðina um það hvernig grunngildin eru uppfyllt. Ég er að segja að hana vanti. Það er hér skilgreining á gagnsæi, ég geri nokkrar athugasemdir við hana, mér finnst hún ekki mjög takmörkuð í rauninni, en allt í lagi, ég samþykki það. Það eru nokkur atriði nefnd en yfirleitt er það sagt þannig að það að leggja fram stefnuna er festa. Það að lækka skuldir er sjálfbærni. En það er ekki nauðsynlega satt. Það getur verið satt, ég get tekið undir það, en það er ekkert mál að rökstyðja það. Það vantar bara rökstuðninginn. Það er það sem ég er að benda á.

Hv. þingmaður gerir ráð fyrir engum grundvallarbreytingum þegar hann framreiknar hversu marga milljarða þessi stefna fer umfram hina. En þetta er einfaldlega fjármálastefna, hún á í sjálfu sér að vera grundvallarbreyting, myndi ég halda. Það er hluti af gagnrýni fjármálaráðs að fjármálastefnan sem gerð er út frá hagspá er síðan ekki tekin og notuð til þess að endurskoða hagspána. Það er eins og fjármálastefnan hafi einfaldlega núlláhrif. Ég myndi segja að stefnan sjálf sé grundvallarbreyting. Þar af leiðandi er dálítið erfitt að bera saman einmitt þessar lokatölur, milljarðana, upp á það að gera. Það kemur kannski betur fram í fjármálaáætluninni.