149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:13]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni hafa átt í miklum erfiðleikum á undanförnum árum, hafa tálgað alla sína starfsemi inn að beini. Lengra verður ekki komist. Þessar stofnanir hafa einfaldlega minnkað þjónustu sína til muna og búa við faglegar þrengingar og álag. Grunnþjónustunni er ógnað. Það heldur áfram samkvæmt núverandi frumvarpi. Fortölur stjórnenda gagnvart fjárlaganefnd og gagnvart fagráðuneyti duga ekkert. Stjórnendur fullyrða að hreinn niðurskurður verði í rekstri og starfsemi á næsta ári, í góðærinu sjálfu. Þetta er hin yfirlýsta endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þetta er öll stórsóknin sem er í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Samfylkingin unir því ekki, vill láta verkin tala en ekki skrumið eitt, og styrkja starfsemi heilbrigðisstofnana sem nemur að lágmarki 500 millj. kr. á árinu 2019. Þetta eru lágmarkstölur og við höfum fjármagnað þá aukningu. (PállM: Hækka veiðigjöld.)