149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Þessi fjárlög eru í samræmi við það sem við var að búast þegar þessi ríkisstjórn tók við og í samræmi við samsetningu hennar. Þetta eru fjárlög án fyrirheits. Það er veruleg útgjaldaaukning, meiri útgjaldaaukning en við höfum nokkurn tímann séð áður þegar ferill þessarar ríkisstjórnar í heild er skoðaður. En í hvað rennur þetta? Þetta rennur í óbreytt kerfi. Það er aðeins á einum stað þar sem menn ætla að halda að sér höndum og bíða með að auka útgjöldin þangað til farið hefur fram endurskoðun á kerfinu og það er í tilviki öryrkja. Alls staðar annars staðar er verið að auka stórlega framlög í óbreytt kerfi þannig að almenningur fær ekki meira fyrir þann pening sem hann leggur í sameiginlega sjóði.

Þetta eru fjárlög án fyrirheits og þetta eru fjárlög sem sýna okkur að þessi ríkisstjórn snýst eingöngu um það sem menn segja en ekki um það sem þeir gera.