149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar að við eigum að grípa fyrsta tækifærið, eins og ég orðaði það hér áðan, en við verðum að vera skynsöm og meta markaðsaðstæður, skoða heildarhagsmunina, hvenær það þjónar best hagsmunum okkar að losa um eignarhlutinn. Ég taldi það mjög mikilvægt skref að ríkið losaði sig út úr Arion banka og að það tókst að skrá þann banka, ekki bara á Íslandi heldur með tvíhliða skráningu. Þar fengum við stærstu erlendu fjárfestingu inn í íslenska bankakerfið sem við höfum nokkru sinni séð og það vekur upp spurningar um það hvort áfram verði mikill áhugi, bæði innan lands og utan landsteinanna, á því að fara með frekari hlut í íslenska fjármálakerfinu. Þetta er auðvitað meðal þess sem við verðum að skoða nákvæmlega. Í því samhengi verður að muna hversu gríðarlega stór fyrirtæki þessir bankar eru í dag í okkar hagkerfi. (Forseti hringir.) Verðmæti þeirra liggur eitthvað á bilinu 160–200 milljarðar í hvorum banka fyrir sig.