150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[18:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu en nefna samt að þegar hann las upp 62. gr. stjórnarskrárinnar las hann bara fyrri efnisgreinina. Seinni efnisgreinin er, með leyfi forseta:

„Breyta má þessu með lögum.“

Þetta er býsna mikilvægur punktur í þessari umræðu þó að það sé auðvitað rétt sem hv. þingmaður nefndi varðandi það með hvaða hætti eigi að breyta þessum lögum og það sérstaka tilfelli að það eigi að vera þjóðaratkvæðagreiðsla sem auðvitað er tilfellið.

Úr því að hv. þingmaður talar um þetta sem lögskilnað kirkjunnar og ríkisins er ljóst að á þessum tímapunkti erum við ekki að fara í breytingu á kirkjuskipun með þeim hætti sem er tilgreindur í 62. gr. stjórnarskrár. Samt eru ákveðin atriði sem þarf að leysa úr. Eins og í öllum skilnaðarmálum þarf alltaf að klára að ganga frá öllum deilum um eignarhald og skiptingu á eignum. Það þarf að ákveða hvort og með hvaða hætti meðlag skuli greitt með börnum, ef einhver eru, og ég veit ekki til þess að ríkið og þjóðkirkjan eigi nein börn saman. Auðvitað er talað um sóknarbörn en það er ekki alveg sami hátturinn. Það væri gaman að heyra frá hv. þingmanni um þetta atriði. Þykir honum á þessum tímapunkti eignarhaldsdeilur ríkisins og þjóðkirkjunnar hafa verið leystar með fullnægjandi hætti? Telur hv. þingmaður að það sé einhver ástæða til að ríkið haldi áfram að greiða meðlag með þjóðkirkjunni?