150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[18:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég vitnaði til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs í því samhengi að ég var búinn að rifja upp ákvæði 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar um að breytingar á kirkjuskipun myndu kalla á þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sem fólst í máli mínu var ekkert annað en að þarna var framkvæmd eins konar skoðanakönnun. Af kjósendum á kjörskrá, sem voru 236.911, voru gild atkvæði 114.570, þ.e. 48,4%. Þetta er mikil þátttaka og í henni felst mikil vísbending um afstöðu. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað verður að lesa mjög nákvæmlega texta spurninga ef menn ætla að álykta eitthvað um málið. Textinn var: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ Mjög ríflegur meiri hluti svarar því játandi.

Hitt sem hv. þingmaður vísaði til var spurningin: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Þetta er óljós (Gripið fram í: Nei.) spurning. Ég þekki persónulega fólk sem sagði já, ýmist á þeirri forsendu að það vildi að þessu frumvarpi yrði fylgt án þess að breyta (Forseti hringir.) svo miklu sem kommusetningu, en ég þekki líka fólk (Forseti hringir.) sem hugsaði bara: Já, það er gott að hafa þetta til hliðsjónar og hafa þetta svona við höndina þegar menn eru að vinna í þessum málum.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)