150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:11]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum að ræða býsna stórt mál sem lætur e.t.v. lítið yfir sér við fyrstu sýn og má segja að sumt af því sé ekki svo galið. En málið hvílir allt saman á samkomulagi sem var gert 6. september 2019 um viðbótarsamning um endurskoðun á samkomulagi milli sömu aðila, þ.e. íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997, sem er hið margumtalaða kirkjujarðasamkomulag. Það sem þetta viðbótarsamkomulag felur í sér og þetta lagafrumvarp hvílir á, og er ætlað að uppfylla hlut ríkisins við fullnustu þessa samkomulags, er um margt sérstakt og ætla ég ekki á þessu stigi að rekja tilurð kirkjujarðasamkomulagsins sjálfs. Um það má hafa enn fleiri orð. En það má kannski segja að höfuðbreytingin sé sú að nú á að greiða fasta upphæð á ári sem nemur tæpum 2,4 milljörðum miðað við það sem greitt var árið 2018. Það sem meira er, nú skal þessi greiðsla vera óháð fjölda biskupa, prófasta, presta og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar. Það þýðir þá að kirkjan ráði sínum starfsmannamálum sjálf. Það er í sjálfu sér ágætt fyrir félag sem er sjálfstætt. Ég kem síðar að þessum punkti.

Annað sem vekur athygli líka er að þessi greiðsla, sem er þá til 15 ára samkvæmt samningnum, er verðtryggð og segir í 3. mgr. 1. gr. samningsins:

„Greiðslur íslenska ríkisins skv. samningnum skulu taka breytingum í samræmi við almennar launa- og verðlagsforsendur sem liggja til grundvallar í fjárlögum hvers árs. Skal við útreikning launaforsendna taka mið af meðaltali kjarasamningsbundinna hækkana hjá Bandalagi háskólamanna (BHM).“

Hér er þá verið að miða við launavísitölu þótt skýrt sé tekið fram að ekki sé lengur verið að greiða laun fyrir tiltekna starfsmenn. Það eitt og sér er nokkuð merkilegt.

Síðan er í 4. mgr. 1. gr. þessa samkomulags býsna merkilegt ákvæði. Ég ætla að lesa úr greininni, með leyfi forseta:

„Á meðan viðaukasamningur þessi er í gildi, skulu þær greiðslur sem fjallað er um í þessari grein ekki taka öðrum breytingum en þeim sem að ofan eru raktar.“ — Þ.e. ekki má breyta neinu án þess að tryggja að þær greiðslur haldi verðgildi sínu út samningstímann. — „Báðir aðilar áskilja sér hins vegar rétt til þess að krefjast breytinga á fjárhæð gagngjaldsins samkvæmt upphaflegu ákvæði 2. töluliðar 3. gr. kirkjujarðasamkomulagins frá 1997.“

Menn áskilja sér því rétt eftir 15 ár til að taka þetta til skoðunar því að þarna er fjallað um 2. tölulið 3. gr. Þar er talað um að fjárhæðir breytist á grundvelli fjölgunar eða fækkunar skráðra meðlima þjóðkirkjunnar. Þannig að í 15 ár, samkvæmt þessu samkomulagi, er bannað að taka nokkurt tillit til þess hvernig þróunin verður hvað varðar skráningar í þjóðkirkjuna. Það er nokkuð merkilegt. Á það hefur verið bent af fleirum en mér, sem ég ætla að benda á núna: Þetta gerist þegar samfelld og stöðug fækkun hefur verið í þjóðkirkjunni í tíu ár, ekki bara að hlutfallslega hafi fækkað í þjóðkirkjunni heldur hefur beinlínis orðið fækkun. Fækkunin er orðin það mikil núna að samkvæmt nýjustu gögnum frá Hagstofunni eru á milli 63% og 64% Íslendinga skráðir í þjóðkirkjuna. Til samanburðar mætti kannski benda á að það hafa sennilega verið um 97–99% í þjóðkirkjunni á þeim tíma sem upphaflegt kirkjujarðasamkomulag var gert. Fjöldi skráðra hefur því minnkað svona mikið. Það er ekkert sem bendir til neins annars en að þessi þróun muni halda áfram, að á bilinu 1.000–1.500 manns muni segja sig beinlínis úr þjóðkirkjunni á ári hverju. Miðað við þá þróun mun hafa fækkað í þjóðkirkjunni um 15.000–20.000 manns þegar þessi 15 ára samningur rennur út.

Talsvert er gert úr því, og ég ætla ekki að draga úr því, að kirkjan gegni mikilvægu hlutverki. Það gerir hún svo sannarlega. Það skýtur því skökku við að á sama tíma og verið er að gera samning til 15 ára og veita kirkjunni fullt frelsi í sínum eigin starfsmannamálum — ríkið ætlar sem sagt ekki lengur að skipta sér af því hve margir prestar eða starfsmenn starfi á vegum kirkjunnar, en fjármunirnir verðtryggðir til 15 ára — er í sjálfu sér ekkert ákvæði um að kirkjan sinni óbreyttu hlutverki, hún muni tryggja, eins og hún talar sjálf um, að allir landsmenn njóti þjónustu kirkjunnar. Ég dreg ekkert úr því að það kunni að vera alveg rétt að þar sé engum úthýst. Því finnst mér dálítið undarlegt að engin ákvæði séu um það, sem mjög mikið er talað um, að kirkjan veiti sálgæslu. Það er ekkert í þessu samkomulagi sem kemur í veg fyrir að kirkjan grípi til þeirra ráða að fækka starfsmönnum sínum verulega. Hún gæti ákveðið að fækka prestum úti á landi. Hún gæti ákveðið að ráða ekki presta til starfa sem hafa lært sálgæslu sérstaklega. Hún hefur þetta algerlega í eigin höndum, þannig að það er ekkert í samkomulaginu sem tryggir að landsmenn allir njóti þjónustunnar, ef við gefum okkur að við njótum öll þjónustu kirkjunnar. Það er ekkert í samkomulaginu sem segir til um að sú þjónusta skuli þá tryggð. Það er harla merkilegt, verð ég að segja.

Síðan er uppsagnarákvæði þessa viðauka líka nokkuð merkilegt. Í 5. gr. viðbótarsamningsins segir, með leyfi forseta:

„Samningur þessi er ótímabundinn, en samningsaðilar geta hvor um sig óskað eftir endurskoðun fjárhagslegra forsendna viðbótarsamnings þessa, að liðnum 15 árum frá undirritun hans. Takist ekki að semja um endurskoðun samningsins innan tólf mánaða frá því slík ósk er lögð fram, getur hvor aðili um sig sagt samningnum upp með tólf mánaða fyrirvara.“

Mér sýnist þá að hægt væri að teygja þetta upp í a.m.k. 17 ár. Og síðan til að kóróna allt saman segir:

„Uppsögn á viðbótarsamningi þessum hróflar þó ekki við gildi kirkjujarðasamkomulagsins frá 1997, samanber inngangsákvæði þessa samnings.“

Þannig að hér er engin opnun á því að taka með neinum hætti til endurskoðunar kirkjujarðasamkomulagið.

Síðan er dálítið merkilegt hver aðkoma Alþingis er að þessum samningi. Hún er harla lítil. Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki kirkjuþings, sem hefur samþykkt samninginn, og ríkisstjórnar Íslands og fyrirvara um að nauðsynlegar lagabreytingar samkvæmt 1. mgr., sem ég reikna með að sé 1. mgr. 7. gr., öðlist gildi. Með öðrum orðum er með samþykkt þessara lagabreytinga sem hér eru lagðar til ætlast til þess að Alþingi fullgildi þennan viðbótarsamning án þess að fá nokkurt einasta tækifæri til að ræða efnislegt innihald hans. Það held ég að sé dálítið undarleg aðferð. Maður hefði haldið að réttara hefði verið að undirrita þennan samning með fyrirvara kirkjuþings og Alþingis. Það væri þá svolítið jafnræði í því máli. Hér er Alþingi nánast stillt upp við vegg og samþykki Alþingi ekki þessar lagabreytingar er þar með búið að gera ríkisstjórn Íslands að ómerkingi í þessari samningagerð. Ekki að ég myndi nú svo sem sýta það.

En ég vil líka nefna að hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra hefur talað býsna skýrt um a.m.k. þá skoðun sína — ég veit ekki hvort það er skoðun flokks hennar eða ríkisstjórnarinnar — að óhjákvæmilegt sé að fullur aðskilnaður verði milli ríkis og kirkju. Þess vegna er dálítið undarlegt að leggja til 15 ára samning sem gefur engin færi á því að ganga þau skref sem þarf að stíga til að svo megi verða.

Í því samhengi er líka rétt að minnast á að fyrir þinginu liggur tillaga til þingsályktunar um fullan aðskilnað ríkis og kirkju og nýja heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga. Í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu, sem ég held að einir 11 þingmenn séu á, er gerð grein fyrir því um hvað þingsályktunartillagan feli í sér og sagt að hún snúist um tvennt og ég ætla að lesa það sem segir um fyrri hlutann, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi að lagt verði fram lagafrumvarp sem feli í sér fullan aðskilnað ríkis og kirkju að lögum bæði að formi, efni og fjárhag. Í því felst að búa þarf þannig um hnúta að slitin verði öll tengsl sem byggjast á gildandi lögum og sérstökum samningum, þ.m.t. sérákvæði stjórnskipunarlaga um þjóðkirkjuna sem tryggir henni sérstöðu umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög.“

Og það sem mikilvægast er:

„Skal samið um endanlegt uppgjör allra samninga þannig að því uppgjöri ljúki eigi síðar en árið 2034.“

Svo skemmtilega vill til að árið 2034 er akkúrat eftir 15 ár.

Það er algengur misskilningur að sá sem hér stendur og margir sem að þessari þingsályktunartillögu standa vilji rifta margumræddu kirkjujarðasamkomulagi, kveðja kirkjuna, en gera ekki upp kirkjujarðasamkomulagið. Það er akkúrat það sem þarf að gera og það er út á það sem sú (Forseti hringir.) þingsályktunartillaga gengur.