150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[20:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Forseti. Þetta var áhugaverð ræða og góðir vinklar sem hv. þingmaður kom inn á. Mér fannst samt kannski einna áhugaverðast að hugsa aðeins um það sem hann nefndi varðandi fækkun í þjóðkirkjunni og að við séum að horfa upp á fækkun upp á 1.000–1.500 manns á ári. Hefur fækkunin verið um 25 prósentustig á síðustu 20 árum, hér um bil. Þá fer maður að velta fyrir sér hvernig áframhaldandi fækkun líti út og ég fæ ekki betur séð en að með slíkri fækkun, samhliða almennri fólksfjölgun í landinu, verði meðlimir þjóðkirkjunnar komnir í kringum 50% innan 15 ára. Það gæti verið ofáætlað hjá mér. Ég gerði þetta á hraðferð á pappír, ég gæti því haft rangt fyrir mér. En ef maður setur þetta í samhengi við þá býsna stóru upphæð sem þjóðkirkjan fær á hverju ári úr ríkissjóði, sem verður verðbætt og heldur því virði sínu, fer maður hugsa. Eru dæmi um að viðlíka samtök og þjóðkirkjan — þetta er náttúrlega bara ákveðið félag, félagsskapur í kringum ákveðin trúarbrögð — eru þess dæmi að ríkissjóður leggi svo mikið fjármagn í félagsskap sem hlutfallslega jafn fáir nýta sér? Ég reyndi að finna þetta í fjárlögunum en fann ekkert sambærilegt.

Það væri áhugavert líka að heyra frá hv. þingmanni hvernig hann sjái þetta í samhengi við réttlætið. Mismunandi trúfélög eru með mismikið fé milli handanna og ákveðið réttlætismál að ekki sé verið að mismuna þeim.