150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég byrji á að svara hv. þingmanni þá hefði hann kannski átt að hlusta á framsöguræðu mína þar sem ég svaraði öllum þeim spurningum sem komu fram í ræðu hans, m.a. varðandi stöðu þeirra embættismanna sem hafa hlotið skipun fram á næstu ár. Þar er lagt til nýtt bráðabirgðaákvæði um réttindi og skyldur starfsmanna sem ætla að halda þeim réttindum út skipunartíma sinn. Það er algerlega skýrt og fór ég vel yfir það í framsögu minni, en það verður síðan að ætla kirkjuþingi einhvern tíma til að skipa þeim málum og starfsreglum sem verða felld á brott með lögunum og því er þetta bráðabirgðaákvæði, sett fram í frumvarpinu og auðvelt að kynna sér það, bæði í frumvarpinu og í framsögu minni.

Varðandi það af hverju frumvarpið er ekki komið fyrr inn er auðvitað ljóst að samningar náðust ekki fyrr en í september og þá þurfti að skoða hvaða reglum og lögum þyrfti að breyta. Það náðust samningar um að starfsmenn kirkjunnar yrðu starfsmenn þjóðkirkjunnar frá og með 1. janúar 2020 og þá þurfti að breyta þessum lögum fyrst og því var vinna hafin við það í ráðuneytinu eftir að samningar náðust og það er komið inn. Síðan þarf að fella á ýmis önnur lög og sjóði sem samkomulag náðist við kirkjuna um (Forseti hringir.) og það mun ég koma með á næsta ári eins og ég talaði um í gær, í framsögu minni og andsvörum sem ég tók þátt í.