150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[21:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg prýðileg spurning. Ég þakka fyrir hana. Ég tel sjálfur að það sé nauðsynlegt að hér fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla þegar og ef mönnum dettur í hug að aðskilja ríki og kirkju endanlega. Það sem ég tel að gæti komið í veg fyrir það er einmitt þetta — það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði — að það þyrfti kannski að meta verðmætin upp aftur. Ég er þeirrar skoðunar persónulega að ástæðan fyrir því að það hefur ekki verið gert sé að ríkið leggi ekki í það vegna þess að það myndi koma í ljós við þá úttekt og þá endurskoðun hversu hlunnfarin kirkjan var á sínum tíma við þetta samkomulag. Ég er ekkert viss um að ríkið hefði endilega efni á því að skilja á milli ríkis og kirkju með endanlegum hætti ef það ætti að reiða af hendi sanngjarnt gjald fyrir þær eignir sem undir liggja.