150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Það hefði verið alveg prýðilegt ef hæstv. ráðherra hefði fengið að tala í fimm mínútur en ekki bara tvær. En nú sé ég að ég er kominn niður í 50 sekúndur. Ég held að við hæstv. ráðherra séum að einhverju marki ósammála um hvort það skipti máli og hvort það hafi gildi í sjálfu sér að þjóðkirkjan hafi sérstakan sess í stjórnarskrá lýðveldisins. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Það sendir þau skilaboð að íslenska þjóðin vilji að þjóðkirkjan sé hér með einum eða öðrum hætti alltumlykjandi að styðja við það samfélag sem hún starfar í. Við sáum þetta koma fram í skoðanakönnuninni árið 2012 þar sem rétt um 2/3 hlutar landsmanna vildu hafa þjóðkirkjuna áfram sérstaklega rammaða inn í stjórnarskrána. 63,5% eru þetta, sé ég hérna hjá mér. Þannig að ég held að sem betur fer sé (Forseti hringir.) meiri hluti landsmanna meira sammála mér í augnablikinu en hæstv. ráðherra hvað þetta sérstaka atriði varðar.