150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefði auðvitað átt að fá lengri tíma núna eins og áðan. Ég biðst afsökunar, það var ekki ætlun mín að leggja hæstv. ráðherra orð í munn. Ég var að leggja út af orðum hennar í framsöguræðunni í gær og þessi vangavelta hæstv. ráðherra, sem ég ætla að leyfa mér að kalla svo, í ræðunni tengdist, að ég held, ekki beint efnisatriðum frumvarpsins. Hún var almenn vangavelta um stöðu þjóðkirkjunnar, þróunina í breyttu samfélagi, eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Það var alls ekki ætlun mín að leggja hæstv. ráðherra orð í munn. Ég er mjög ánægður að heyra að skoðun hæstv. ráðherra sé mögulega ekki eins einörð í þeim efnum og ég upplifði þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra af mikilli samviskusemi í gær. Ég held að við munum einhenda okkur í að verja stöðu þjóðkirkjunnar í íslensku stjórnarskránni, (Forseti hringir.) henni og okkur öllum til mikilla heilla.