150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[22:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu samhengi verðum við auðvitað bara að horfa til raunheima. Ef við ætlum okkur að leggja mat á raunverulegt virði þeirra eigna sem kirkjan afhenti ríkissjóði með þessu samkomulagi eða samningum þá er það vinna sem þarf að fara í, eins og ég kom að í fyrra andsvari, ef menn vilja komast til botns í raunverulegum höfuðstóli þar. En ég bara áttaði mig ekki á einu atriði. Ég er búinn að fletta í gegnum þessar 384 bls. skýrslunnar, sem var unnin árið 1984 og er mjög ítarleg, Álitsgerð kirkjueignanefndar. Hún er magnað gagn að fletta í gegnum. En mér yfirsást að þar væri fasteignamat afhentra jarða tilgreint upp á krónu. Ekki upp á milljarð, ekki upp á milljón heldur upp á krónu. En þá verð ég að viðurkenna, með alla þekkingu og getu Pírata, að ef það var hægt að reikna fasteignamatið upp á 1 kr. á öllum þessum stabba, hvernig getur verið að undirliggjandi eignir séu ekki þekktar? Væri það ekki spurning? Ég veit að hv. þm. Pírata Björn Leví Gunnarsson er mikill áhugamaður um fyrirspurnir. Þá smellir hann kannski í eina slíka. (BLG: Búinn að því.)