150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú velti ég svolítið fyrir mér hvort ég komi þessu skýrt frá mér. Með fyrirvara um vanþekkingu mína á innri störfum þjóðkirkjunnar geri ég ráð fyrir að hv. þingmaður hafi hárrétt fyrir sér, að sjóðirnir eigi að vera gegnsæir og eitthvað því um líkt. Þetta er ábyggilega svipað og ég myndi segja ef ég væri sjálfur meðlimur í þessu ágæta félagi og eflaust eitthvað svipað og ég myndi segja um önnur félög sem ég er meðlimur í eða gæti orðið meðlimur í seinna. Sömuleiðis geri ekki athugasemd í sjálfu sér við það að þingmaðurinn flytji þessa ræðu, að innihaldi og tilgangi. Mér finnst bara skrýtið að staðan sé sú að í raun og veru eigi ræðan heima hérna. Ég ætla að reyna að finna líkingu. Í 62. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um þjóðkirkju. Stjórnarskráin er þegar allt kemur til alls pólitískt plagg. Hún lýsir því hvernig við viljum hafa hlutina. Þannig að ef ég ætlaði að koma hingað og stinga upp á því að þar væri ekki evangelíska lúterska kirkjan heldur kaþólska kirkjan eða Fríkirkjan í Reykjavík eða bara eitthvert annað félag ætti ég faktískt séð að standa hér og færa trúarleg rök fyrir því, sem ég myndi telja algjörlega afleita stöðu, að koma hingað og fara í trúarlega rökræðu. Eins gaman og mér þætti eflaust að gera það þætti mér það ekki alveg við hæfi. Mér finnst það ekki vera eðlilegur hluti af því sem við gerum hérna. En að sama skapi finnst mér stjórnarskráin í raun og veru segja mér að það sé eðlilegt. Það er það sem er svo erfitt við þetta fyrirkomulag. Mér finnst ekkert að því að hv. þingmaður nefni þá hluti sem hann nefndi. Mér finnst í raun og veru óeðlilegt að það komi starfinu við. Vonandi kom þetta þokkalega skýrt frá mér. Ég kann svo sem ekki að útskýra þetta betur en þannig að ef ég væri í þeirri stöðu að vera í félagi og ég stæði hérna í pontu og ræddi það að stjórnin ætti að svona eða hinsegin, það ætti að vera gegnsæi í sjóðum og þeir ættu að vera svona og hinsegin, þá myndi ég velta fyrir mér: Ætti þetta ekki bara að vera algerlega óviðkomandi Alþingi? Því myndi ég velta fyrir mér. Þess vegna velti ég fyrir mér að hve miklu marki við erum sammála þar.