150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanni hugleiðingarnar. Það er kannski hollt og gott í því sambandi að hugsa til stjórnarskrárinnar og þess að ríkið eigi að styðja og styrkja þjóðkirkjuna. Með vísan til þess stend ég í þessum ræðustól og lýsi því yfir að ég vonist til þess að sú mikla breyting sem þjóðkirkjan stendur nú frammi fyrir verði kirkjunni til blessunar og að hún nýti það frelsi sem hún fær með þeirri grundvallarbreytingu þjóðinni til góðs. Það er kannski meginhugleiðing mín hvað það varðar þegar hv. þingmaður var að reyna að koma því til skila að honum fyndist óeðlilegt að maður væri að ræða innra starf kirkjunnar, sem má vissulega segja að þessir sjóðir séu eða komi til með að verða vegna þess að núna fara þeir í einn pott og þá er það hlutverk kirkjunnar sjálfrar að úthluta úr sjóðunum. Að því leytinu til vænti ég þess að þeir hlutir gangi vel fyrir sig og að það verði gott fólk sem sér um þá sjóði og það verði, eins og ég sagði áðan, gegnsæi og allt það sem á að fylgja góðum stjórnarháttum vegna þess að sjóðirnir eru mikilvægir landsbyggðinni, sérstaklega í litlum sóknum sem skipta máli, eins og t.d. varðandi viðhaldið á byggingum sem er kostnaðarsamt. Það er því mikilvægt að (Forseti hringir.) sanngirni og gegnsæi ríki í úthlutun sjóðanna.