150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[23:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það, mér finnst rökin ekki góð. Reyndar heyrði ég engin rök ef ég á að segja alveg eins og er, a.m.k. engin sem ég myndi telja góð eða gild. Það er alveg rétt að það er trúfrelsi á Íslandi. Það er svolítið hamrað á þessu. Mér finnst það bara sjálfsagt. Ef einhver kvartar undan óréttlæti, segjum að einhver fái miklu minni laun fyrir sömu vinnu en annar, og þá er sagt við viðkomandi: Ja, þú ert a.m.k. ekki í fangelsi, þú mátt hætta. Ókei, takk æðislega.

Ég tók því svolítið sem sjálfsögðum hlut að við hefðum trúfrelsi. Mér finnst það ekki réttlæta eða vera rök fyrir því á neinn hátt að hafa sérstök forréttindi fyrir einn tiltekinn trúarsöfnuð, sérstaklega ekki þegar það er einmitt stærsti og mest yfirþyrmandi og öflugasti trúarsöfnuðurinn. Það er minnsta þörfin á einhverjum sérstökum forréttindum í nákvæmlega þeim tilfellum. Ef einhvern tímann væri rökrétt að styðja eitt trúfélag hlutfallslega umfram annað væri það sérstaklega ef það væri einhver kúgaður minnihlutahópur eða því um líkt. Það er þveröfugt með þjóðkirkjuna. Meiri hluti landsmanna er í henni og hún fær þó nokkuð mikil sóknargjöld, á þó nokkuð af eignum o.s.frv. Hún þarf í raun og veru minnstu forréttindin. Þar fyrir utan held ég að það gæti alveg verið eðlilegt fyrir ríkið að styðja við trúarsöfnuð en það þarf þá að vera á jafnréttisgrundvelli.

Hvað varðar sáluhjálpina er alveg rétt að hún er mjög mikilvæg sem dæmi um þá þjónustu sem kirkjunni ber að veita, en hún getur eðli málsins samkvæmt einungis veitt hana þeim sem geta nýtt sér hana, þ.e. þeim sem aðhyllast þá heimsmynd og trúa því sem þarf að trúa til að sáluhjálpin komi að gagni. Einstaklingur eins og ég hefur einfaldlega ekkert við hana að gera vegna þess að ég trúi ekki því sem ég þarf að trúa til að hún gagnist mér. Ég þarf að leita til annarra stofnana. Ég kvarta ekkert undan því, ég er bara að segja: Þjóðkirkjan fær þetta sérstaka forskot til að veita þjónustu sína umfram það sem aðrir söfnuðir geta gert og það finnst mér óréttlátt. Ég veit að þetta hefur ekki verið dæmt andstætt við trúfrelsi, (Forseti hringir.) það dugir mér bara ekki. Mér finnst að við eigum að hafa sanngjarnt þjóðfélag og sanngjarnt kerfi.