151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2021, 3. umr. Nefndin hefur fjallað um málið að nýju eftir 2. umr. og fengið fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sinn fund. Breytingartillögurnar sem eru hér á þingskjölum eru bæði á gjalda- og tekjuhlið frumvarpsins, auk 5. gr. um lántökur og 6. gr. um almennar heimildir.

Ég ætla að fara yfir þessar breytingar eins og frá er greint í nefndaráliti, þó ekki allan þann skýringartexta sem fylgir í nefndarálitinu, en áætlað er að tekjur ríkissjóðs hækki um 1.780,4 millj. kr. og áætlað er að gjöld ríkissjóðs hækki um 3.559 millj. kr.

Á tekjuhlið munar mest um tæplega 1,8 milljarða kr. vegna framlags Húsnæðissjóðs til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Breytingin kemur fram á bæði tekju- og gjaldahlið ríkissjóðs og hefur því engin áhrif á afkomu ríkissjóðs. Hér er um að ræða framlag Húsnæðissjóðs til rekstrar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Sömu tillögu var að finna í fjárauka.

Önnur veigamesta breytingin á tekjuhlið snýr að tekjuskatti einstaklinga þar sem gert er ráð fyrir 600 millj. kr. hækkun á árinu. Skýrist það af tveimur ástæðum. Annars vegar hefur úttekt á séreignarsparnaði reynst heldur meiri en áætlað var en yfirgnæfandi er þó breyting á tekjuskatti einstaklinga sem minnkar minna en gert var ráð fyrir. Draga má þá ályktun að vinnumarkaðsaðgerðir ríkisstjórnarinnar séu þar að skila sér. Til að mynda hefur endurmat á launum í uppsagnarfresti og framlengingu hlutabótaleiðar leitt til hærri tekna en ætlað var og þar með hærri tekjuskatts.

Aðrar breytingar á tekjuáætlun felast í rúmlega 200 millj. kr. lækkun veiðigjalda, að stærstum hluta vegna lægri álagna á fiskeldi en upphaflega var gert ráð fyrir. Þess má geta að gjald á framleiðslu í fiskeldi er bæði framleiðslutengt og markaðstengt. Það fer því eftir tonnafjölda og er þannig framleiðslutengt en jafnframt er það markaðstengt. Heimsmarkaðsverð hefur lækkað frá því í haust og útskýrir að mestu þessa lækkun. Þá er 175 millj. kr. lækkun kolefnisgjalds, þar sem fallið hefur verið frá sérstakri fjármögnun nýrrar svæðisbundinnar flutningsjöfnunar, og um 120 millj. kr. lækkun skila- og úrvinnslugjalda í ljósi endurmats. Þá er áætlun um sölu losunarheimilda lækkuð um 200 millj. kr.

Þá ætla ég að fara yfir helstu gjaldabreytingar. Samtals eru gerðar tillögur um að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verði auknar um 7,6 milljarða kr. vegna breyttra forsendna, ákvarðana um ný og aukin útgjöld og launaendurmats. Samtals nemur launaendurmatið rúmlega 1,7 milljörðum kr. til hækkunar. Að þeim frátöldum nemur hækkunin 5,9 milljörðum kr. Ný og aukin útgjöld vegna nýrra ákvarðana nema tæpum 2,5 milljörðum kr. og skýrist það af nokkrum ástæðum.

Í fyrsta lagi er 590 millj. kr. hækkun á málefnasviði 34, Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir, til að standa undir kaupum á tveimur eignum sem koma fram í heimildaákvæðum 6. gr. fjárlaga en það eru Keldur og Hótel Gígur vegna Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í öðru lagi er 470 millj. kr. tillaga til stuðnings íþróttafélögum vegna fastra rekstrarútgjalda á því tímabili sem samkomutakmarkanir koma í veg fyrir eðlilega starfsemi þeirra. Markmið stuðnings er að tryggja áframhaldandi faglegt íþróttastarf og rekstrargrundvöll íþróttafélaga. Tillagan kom fram við 2. umr. frumvarpsins en var afturkölluð og er nú lögð fram hér að nýju þar sem hún mun fylgja frumvarpi sem við samþykktum fyrr í dag.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um að veitt verði 400 millj. kr. framlag á málefnasviði 8, Sveitarfélög og byggðamál, sem styðji við stefnumarkandi áætlun stjórnvalda um eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukna sjálfbærni þess með sameiningu sveitarfélaga.

Í fjórða lagi er gerð tillaga um 350 millj. kr. framlag vegna húsnæðisbóta af tvenns konar tilefni. Annars vegar er um að ræða 100 millj. kr. hækkun frítekjumarka. Snýr það, virðulegi forseti, að þeirri ákvörðun að nýta 1.100 milljónir til að hækka hér lægstu bætur á næsta ári og til að koma í veg fyrir að sú hækkun skerði húsnæðisbætur. Þá breytir hæstv. félagsmálaráðherra reglugerð og hækkar skerðingarmörkin. Framlagið er til að mæta þeirri hækkun. Hins vegar eru hér 250 millj. kr. vegna þess að áætlað er að fleiri einstaklingar njóti nú húsaleigubóta heldur en forsendur fjárlagafrumvarps gerðu ráð fyrir.

Í fimmta lagi er gerð tillaga um 437 millj. kr. hækkun á nokkrum málefnasviðum vegna leiðréttingar á lækkun ferðakostnaðar sem gerð var við 2. umr. frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2021.

Í sjötta lagi er gerð tillaga um 120 millj. kr. fjárheimild til þess að fjármagna kostnað við loðnuleit á vegum Hafrannsóknastofnunar. Á haustmánuðum kom umsögn og fjárbeiðni við fjárlagafrumvarpið sem snýr að loðnuleit. Það hefur verið í samkomulagi við fyrirtæki í sjávarútvegi og rannsóknaraðila á vegum stofnunarinnar að fara í þessa loðnuleit. Síðan þá hefur verið farið í tvær leitir og þær hafa gefið það góð fyrirheit að nú er fyrirhuguð ferð í janúar, febrúar sem er talin nauðsynleg til að útkljá hvort ekki finnist loðna. Þess vegna er þessi tillaga hér.

Í sjöunda lagi er gerð tillaga um 80 millj. kr. tímabundna fjárheimild til þriggja ára á málefnasviði 20, Framhaldsskólastig, vegna Keilis.

Aðrar breytingar en þær sem tengjast nýjum ákvörðunum nema 3,4 milljörðum kr. til hækkunar. Þar vega langþyngst endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar og er áætlað að þær hækki um 2,9 milljarða kr. frá fyrri áætlun. Um er að ræða endurmat á áætlunum en aukninguna má nær alfarið rekja til lagabreytinga á yfirstandandi ári þar sem bæði þak og endurgreiðsluhlutfall vegna endurgreiðslna á rannsóknar- og þróunarkostnaði var hækkað. Það má segja það hér, virðulegi forseti, að fyrirtæki hafa heldur betur tekið við sér á þessu sviði og er það vel.

Þá er gert ráð fyrir 1,8 milljarða kr. hækkun fjárheimilda vegna breyttrar framsetningar á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Það er í raun og veru gjaldfærsla á móti tekjufærslunni sem ég fór yfir áðan. Gert er ráð fyrir samsvarandi rekstrartekjum á móti fjárheimildinni eins og fjallað er um hér að framan.

Sama gildir um 200 millj. kr. hækkun á málefnasviði 4, Utanríkismál, vegna kostnaðarhlutdeildar verkefna í miðlægum rekstri sem gert er ráð fyrir að verði tekjufærð á aðalskrifstofu.

Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir rúmlega 70 millj. kr. hækkun vegna endurmats á áætlun um rekstrartekjur og framlögum sem taka mið af uppfærslu tekjuáætlunar.

Auk framantalinna útgjalda er lagt til að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verði auknar um 1,7 milljarða kr. vegna endurmats á launaforsendum fjárlaga fyrir árið 2019 og árið 2020 annars vegar og vegna endurmats á launaforsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2021 hins vegar. Þar er einkum um að ræða breytingar vegna kjarasamninga við lækna, gerðardóms hjúkrunarfræðinga, sem var áður gert ráð fyrir á almennum varasjóði, og vegna endurmats á launahækkunum þjóðkjörinna fulltrúa og dómara.

Að lokum eru lagðar til nokkrar aðrar tæknilegar breytingar, svo sem millifærslur milli málaflokka og lagfæringar á hagrænni skiptingu og millifærslum sem gerðar voru við 2. umr. málsins á málefnasviði 24, Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.

Auk þess eru lagðar til þrjár breytingar við 6. gr. frumvarpsins. Tvær þeirra er einnig að finna í breytingartillögum meiri hluta við 2. umr. fjáraukalaga fyrir árið 2020. Þar er um að ræða framlengingu vegna listamanna og heimild til hlutafjáraukningar í Keili.

Hin þriðja lýtur að því að koma á fót sérstöku fasteignaumsýslufélagi í eigu ríkisins sem hafi það hlutverk að fara með eignarhald og umsýslu á þeim fasteignum sem Háskóli Íslands nýtir í starfsemi sinni ásamt því að leggja félaginu til þær fasteignir er háskólinn nýtir sem eru í eigu ríkissjóðs.

Unnið hefur verið að útfærslu á breyttu fyrirkomulagi til framtíðar varðandi umsýslu fasteigna háskólans í samræmi við markmið ráðuneytisins og Háskóla Íslands.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir nefndarálit meiri hluta og hv. fjárlaganefndar og þær meginbreytingar sem koma fram á tekju- og gjaldahlið. Að öðru leyti vísa ég til frekari skýringa sem fram koma í nefndaráliti meiri hlutans og breytingartillagna á sérstöku þingskjali.

Undir álitið rita eftirtaldir hv. þingmenn: Willum Þór Þórsson, Haraldur Benediktsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Páll Magnússon og Steinunn Þóra Árnadóttir.