151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég er hérna með breytingartillögu inn í 3. umr. sem mig langaði aðeins til að útskýra. Það er breytingartillaga upp á 149 milljónir innan málefnasviðs framhaldsskóla. Í fjárlögum segir að 0,5% aðhaldskrafa sé á málefnasviði framhaldsskóla, sem er tæpir 38 milljarðar, en 0,5% af því eru ekki þær 337 milljónir sem eru settar undir hið svokallaða aðhald í framsetningu fjárlaga undir málefnasviðinu. Við spurðum um þetta í fjárlaganefnd. Þar var sagt að aðhaldið væri einungis tæpar 240 milljónir sem eru heldur ekki 0,5% af þeim fjárheimildum sem það málefnasvið er með. Það er nær því að vera 0,7%, rétt tæplega það, þannig að tillagan mín hérna snýst um það að aðhaldskrafan verði einungis 0,5% en ekki 0,9% eins og hún er núna. Það verður að teljast pínulítið merkilegt að þessi galli sé í lögunum og ég hlakka til að sjá þingmenn meiri hlutans greiða atkvæði með þessari breytingartillögu því að sagt er í fjárlögum að aðhaldskrafan eigi að vera 0,5% og þá þarf væntanlega að greiða atkvæði um að hafa hana ekki 0,5%, eða hafa hana 0,9%. Í svari ráðuneytisins kom fram að af þessum 337 millj. kr. væru 100 millj. kr. lækkun á útgjaldaaukningu eða eitthvað því um líkt, útgjöldin hefðu aukist svo rosalega mikið að 100 milljónirnar, hluti af aðhaldinu eins og það var sett fram í fjárlögum, væru einmitt sá hluti, að minnka útgjöldin á málefnasviðinu, sem ég skil ekki að neinu öðru leyti nema það sé einmitt aðhaldskrafa. Áður voru notaðar 100 milljónir í einhver verkefni en nú á einfaldlega að stroka þau út og það kallað lækkun á útgjaldaaukningu en ekki aðhald. Þar er einhvers konar nýmæli, „new speak“-dót, með leyfi forseta, í gangi. Þessi tillaga er mjög einföld: Að hafa aðhaldskröfuna í fjárlögum eins og hún er lögð fram í fjárlögum; 0,5%, ekki 0,9% og ég hlakka til að sjá atkvæðagreiðslu um það mál.