151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan er langstærsti hlutinn af þessu málefnasviði skólar. Eins og stendur í fjárlögunum:

„Aðhaldsmarkmið í rekstri heilbrigðis- og öldrunarstofnana og skóla er þó til muna lægra, eða 0,5%.“

Þetta varðar bara skólana eins og þeir leggja sig. Í tæplega 38 milljarða fjárheimild í þetta málefnasvið sakar nákvæmlega ekki neitt að lækka aðhaldskröfuna úr 0,9% í 0,5%, sem er í þessu 159 milljónir þótt það sé ekki hárnákvæmt, það munar kannski 2–5 milljónum til eða frá. Ef það er aðeins of mikil viðbót er ekkert mál að segja: Við nýttum ekki alla fjárheimildina í þetta af því að aðhaldskrafan var í rauninni aðeins minna en þetta. Og þá er fénu bara skilað til baka eins og lög um opinber fjármál gera ráð fyrir. Þannig að það er enginn skaði skeður þótt þetta sé samþykkt. Það munar einhverjum örfáum kommum þarna í hinu stóra samhengi þessa málefnasviðs. En aftur á móti myndi muna um þessa fjárhæð, til að byrja með út af aðaldskröfunni, sem gæti t.d. farið í ýmiss konar ný verkefni sem talað hefur verið um hérna og munaði mjög litlu að yrði samþykkt í fjárlagaumræðunni við 2. umr. varðandi aðgengi að tíðavörum og þess háttar. Þannig að þetta fjármagn gæti nýst ráðherra til að gera það.