151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um fæðingar og foreldraorlof og er breytingartillagan í tveimur liðum. Fyrsti liður orðast svo:

„Ef foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu eða hinu foreldrinu, eða brottvísun af heimili, færist sá réttur til fæðingarorlofs, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 8. gr. og foreldri hefur ekki þegar nýtt sér, yfir til hins foreldrisins nema foreldrar hafi komist að samkomulagi um annað. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Lögreglustjóri eða dómstólar skulu staðfesta að foreldri sæti nálgunarbanni eða brottvísun af heimili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem sætir nálgunarbanni eða brottvísun af heimili að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum. Foreldri sem hefur öðlast rétt við tilfærslu samkvæmt þessu ákvæði skal hvenær sem er heimilt að framselja þann rétt aftur til hins foreldrisins.“

3. mgr. 30. gr. orðast svo:

„Ef foreldri er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu eða hinu foreldrinu, eða brottvísun af heimili, færist sá réttur til fæðingarstyrks, sem stofnast hefur til skv. 1. mgr. 26. gr. eða 1. mgr. 27. gr., og foreldri hefur ekki þegar nýtt sér, yfir til hins foreldrisins nema foreldrar hafi komist að samkomulagi um annað. Á þetta við hvort sem foreldrar fara sameiginlega með forsjá barnsins eða ekki. Lögreglustjóri eða dómstólar skulu staðfesta að foreldri muni sæta nálgunarbanni gagnvart barni sínu eða brottvísun af heimili á fyrrgreindu tímabili. Við tilfærsluna verður réttur þess foreldris sem sætir nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili að þeim réttindum sem hitt foreldrið hefur áunnið sér samkvæmt lögum þessum. Foreldri sem hefur öðlast rétt við tilfærslu samkvæmt þessu ákvæði skal hvenær sem er heimilt að framselja þann rétt aftur til hins foreldrisins.“

Herra forseti. Þessar breytingartillögur eru algerlega í samræmi við það lagaákvæði sem er nú þegar í frumvarpinu er varðar beitingu heimildar til tilfærslu réttinda þegar um er að ræða nálgunarbann samkvæmt lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sá ómöguleiki sem tilgreindur var hér áðan styður meiri hluti nefndarinnar við það að um sé að ræða önnur lög sem heyrir undir annan ráðherra en þann sem fer með málefni fæðingarorlofs. Ég vísa þessu algjörlega á bug enda erum við hér að tala um rétt til fæðingarorlofs en ekki breytingar á lögum um nálgunarbann. Hér erum við að tala um rétt til fæðingarorlofs, rétt barns og foreldris sem mátt hefur sæta grófu ofbeldi, ítrekuðu ofbeldi, hótunum um ofbeldi, rétt þeirra til töku fæðingarorlofs í 12 mánuði á fyrstu mánuðum í ævi barns. Það þarf ekki starfshóp utan um þetta mál, virðulegur forseti. Það þarf pólitískan vilja til að vernda foreldri og barn í svona aðstæðum og vernda rétt þeirra til 12 mánaða fæðingarorlofs til samræmis við rétt annarra barna og annarra foreldra þar sem bara annars foreldrisins nýtur við. Það þarf pólitískt hugrekki, pólitískan vilja, herra forseti.