151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[21:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Sem betur fer hafa lífskjör okkar almennt batnað og lífslíkur hafa aukist og sem betur fer býr stór hluti eldri borgara við býsna góð kjör. En um 9.000 búa samt enn þá við fátækt og margir við illan kost. Stór hluti var áður á örorku, er á leigumarkaði eða hefur einfaldlega bara ekki nógu gott bakland. Með því að samþykkja þessa tillögu getum við tryggt að komið verði til móts við hógværa kröfu Landssambands eldri borgara um að ellilífeyrir hækki um 15.750 kr., rétt eins og samið var um í lífskjarasamningunum. Það er nú allt. Þetta kostar tæplega 3 milljarða og við hljótum að hafa efni á því að tryggja þessu fólki líka hlutdeild í lífskjarasamningunum.