152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

móttaka flóttafólks frá Úkraínu.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þessir atburðir hafa líka sýnt okkur hversu mikil verðmæti felast í friði í heiminum. Friður er í raun og veru undirstaða allra framfara, efnahagslegra sem samfélagslegra. Við sjáum það þegar það brýst út stríð með þessum hætti, með þessari innrás, hvernig lífi þessa fólks, venjulegs fólks, er hreinlega snúið á hvolf og það leggur á flótta eða grípur til vopna. Í Úkraínu er ekki verið að ræða þau viðfangsefni sem við getum leyft okkur að fást við hér þegar við ræðum um efnahagslegar framfarir, velsældarmarkmið o.fl. Það kannski sýnir okkur svo áþreifanlega hversu dýrmætur friðurinn er. Ég veit að ég tala fyrir hönd okkar allra þegar ég segi að við vonumst svo sannarlega til þess að þessum stríðsátökum ljúki sem fyrst. Það hefur verið alger samstaða um það ákall. Hernaðinum verður að linna. Við gerum okkar meðan á þessu stendur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)