152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

uppbætur á lífeyri vegna lyfja o.fl.

[15:27]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og taka undir með honum varðandi það sem hann sagði í upphafi síns máls um Úkraínu og fólk á flótta þar. Það er hárrétt hjá þingmanninum að það hefur heldur ekki allt fólk jöfn tækifæri til að leggja á flótta þó svo að það vildi jafnvel gera það. Það á sérstaklega við um fatlað fólk, eins og hv. þingmaður benti á.

Fyrirspurn þingmannsins snýr að uppbótarlífeyri og tækjabúnaði sem skerðist þegar ákveðinni upphæð er náð. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að þetta er eitt af því sem við þurfum að leggjast mjög vel yfir núna þegar heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu fer fram. Það er vinna sem ég er að setja í forgang í ráðuneyti mínu vegna þess að við vitum öll og við erum öll sammála um að sá hópur samfélagsins sem hefur einna helst setið eftir á undanförnum árum er örorkulífeyrisþegar. Við skuldum okkur sjálfum í heild — við erum öll sama þjóðin og við eigum að gera betur þegar kemur að þessum hópi og þessu fólki. Það er forgangsatriði sem er í vinnslu í ráðuneytinu hjá mér, byggt á vinnu sem farið hefur fram á undanförnum árum. Við höfum talað um það mjög lengi að þessu kerfi þurfi að breyta og það skulum við gera í sameiningu.