152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála.

294. mál
[15:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við fáum tækifæri til að ræða vinnumarkaðsmál og ég held að við ættum reyndar að taka sérstaka umræðu um þau. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Guðbrandur Einarsson sagði hér á undan, það eru ákveðnar grundvallarundirstöður í íslensku samfélagi sem þarf að laga til þess að menn og fólk geti sest að samningaborðinu með reisn og nokkuð mikilli vitneskju um að hægt sé að vinna að einhverju stabílu módeli, sem ég tel mikilvægt að við förum að flytja okkur yfir í, að við förum úr þessum vinnumarkaðslíkani sem hefur gilt hér í áraraðir, áratugi. Við sjáum ekki síst núna þegar við erum komin í verðbólgu og vextir eru á uppleið, að það er þörf fyrir stöðugleika í vinnumarkaðsmálum sem aldrei fyrr, ekki síst fyrir almenning í landinu. En auðvitað er það fróðlegt og ég hefði gjarnan viljað fá að heyra hér hvaða boðskap forsætisráðherra og ríkisstjórnin ætlar að fara með inn í kjaraviðræður, t.d. varðandi aðkomu ríkissjóðs. (Forseti hringir.) Mun ríkisstjórnin gera t.d. kröfu um að kjarasamningar samræmist efnislega verðbólgumarkmiðum ríkisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Það er mikilvægt fyrir okkur sem hér erum að vita um slíka afstöðu og nálgun.