Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

staða framkvæmda í Reykjavík vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

296. mál
[16:45]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa margþættu fyrirspurn. Ég ætla að reyna að komast í gegnum hana á þessum fimm mínútum. Ég hjó þó eftir að þingmaðurinn hafði þau orð uppi að þessar framkvæmdir ættu að vera, eða áttu að vera, svo vitnað sé orðrétt til, en staðreyndin er sú að þær bæði eru og verða mestu framkvæmdir sem framkvæmdar hafa verið hér á Suðvesturhorninu.

Varðandi umferðarljósin má segja að snjallvæðing umferðarljósa hafi í raun hafist árið 2007 og í dag er rúmlega helmingur umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu með miðlæga stýringu og er unnið að því núna í þessu verkefni að tengja öll umferðarljós. Árið 2020, við upphaf samgöngusáttmálans, fór fram greining á núverandi umferðarljósakerfi og rekstri þess, auk þess sem metnir voru kostir og gallar mismunandi umferðarljósakerfa, m.a. vegna gagnrýni sem var tekin upp í þinginu. Niðurstaða úttektarinnar var að kerfið sem hefur verið innleitt á síðustu árum er gott og einnig sú tækni sem það byggir á. Því var lagt til að haldið yrði áfram á sömu braut og áhersla lögð á að nýta betur þá möguleika sem núverandi kerfi býr yfir. Einnig ætti að leggja áherslu á að þróa stefnu með skýrum markmiðum, skilgreina mælikvarða og ferla til að mæla árangur, meta þörf á mannafla, efla samvinnu veghaldara, þ.e. Vegagerðarinnar og sveitarfélaga. Í framhaldinu var stofnaður samstarfshópur Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og SSH um umferðarljós og stýringar og honum falið að gera aðgerðaáætlun um hvernig ná mætti betri árangri með umferðarljósastýringu á höfuðborgarsvæðinu. Fyrstu verkefni samkvæmt aðgerðaáætluninni eru nú í vinnslu og snúa þau að því að skilgreina stefnu og markmið ásamt úrbótaverkefnum og einstaka gatnamótum. Markmið vinnunnar er í anda sáttmálans, þ.e. að stuðla að greiðari samgöngum og auknu öryggi í umferðinni og ég fékk ágæta kynningu á þessu verkefni fyrir jól. Það virðist vera í þokkalegu ferli.

Um stöðuna á breytingu gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar er það að segja að Vegagerðin og Reykjavíkurborg vinna að frumdrögum að breyttri útfærslu þessara gatnamóta sem snúa að því að breyta núverandi gatnamótum í gatnamót með vinstri beygju af Reykjanesbraut inn á Bústaðaveg á brú. Ekki verður hins vegar hægt að taka vinstri beygju af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut sem aðeins er hægt að gera utan annatíma í dag. Eftir breytingar verða því ekki umferðarljós á þessum stað á Reykjanesbraut. Vinna við frumdrögin er langt komin en hluti vinnunnar felst í því að útfæra legu borgarlínu á Reykjanesbraut frá Mjódd að Vogabyggð. Þá er ferlið við mat á umhverfisáhrifum hafið með undirbúningi á tillögu að matsáætlun. Gert er ráð fyrir að for- og verkhönnun ásamt mati á umhverfisáhrifum ljúki á næsta ári og í framhaldinu verði framkvæmdin boðin út, þ.e. á næsta ári.

Varðandi Arnarnesveg og Breiðholtsbraut og gatnamótin þar hófst forhönnun á útfærslu þeirra gatnamóta um mitt ár 2021 og lauk í nóvember síðastliðinn. Nú er unnið að hönnun framkvæmdarinnar og er gert ráð fyrir að henni ljúki bara á næstu dögum, vikum. Kópavogur og Reykjavíkurborg eru með sameiginlegt deiliskipulag fyrir Arnarnesveg í kynningu. Gert er ráð fyrir að deiliskipulagsferlinu ljúki núna í vor og í framhaldinu verður framkvæmdin boðin út og er áætlað að framkvæmdir hefjist um mitt þetta ár.

Með uppbygginguna á Keldnalandi, hvort hún sé hafin og ef svo er hver sé staðan á henni, þá er það þannig samkvæmt samgöngusáttmálanum að ríkið leggur Keldnalandið til Betri samgangna ohf. sem er síðan ætlað að þróa landið í samstarfi við Reykjavíkurborg og nýta afraksturinn af því til að fjármagna verkefni sáttmálans að hluta. Betri samgöngur tóku til starfa í janúar 2021 og óskaði fyrirtækið eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um þróun og skipulag landsins. Borgin skipaði starfshóp um skipulagningu landsins 31. maí síðastliðinn og hafa Betri samgöngur frá þeim tíma unnið að undirbúningi þróunar og skipulags Keldnalands í samstarfi við Reykjavíkurborg og eftir því sem ég best veit, ég var á fundi í morgun, gengur það ágætlega. Unnið er nú að nauðsynlegum grunnrannsóknum á landinu, gagnasöfnun og greiningu sem gengur vel og í framhaldinu er áætlað að vinna rammaskipulag fyrir svæðið og deiliskipulag fyrstu uppbyggingar reita í kjölfarið. Uppbyggingin sjálf getur hafist af því starfi loknu. Ég þori ekki að fullyrða hér tímalínuna í þessum hluta.

Ég verð að fá að koma inn á leiðakerfi Strætós í lokaorðum mínum en mig langar að geta þess í upphafi að samgöngusáttmálinn (Forseti hringir.) snýst um uppbyggingu innviða en ekki rekstur almenningssamgangna. Engu að síður er ég með upplýsingar um hvernig það hefur þróast.