Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

heilsársvegur yfir Öxi.

316. mál
[17:19]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu einnig. Varðandi ný og fleiri verkefni og jafnvel minni verður það reyndar aðeins vandasamt þar sem þetta ferli er flókið. Það tekur langan tíma. Ef verkefnin eru of lítil þá virðist áhugi aðila ekki vera nægur þannig að ég hef áhyggjur af því að það verði ekki auðvelt að segja já við ágætri spurningu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar. Það er þá út af því. Ég vil líka spyrja hv. þm. Andrés Inga Jónsson: Trúir hv. þingmaður því að Hvalfjarðargöngin væru komin ef við hefðum tekið þau í gegnum samgönguáætlun á síðastliðnum 20 árum með einu efnahagshruni og einum alheimsfaraldri? Trúir hv. þingmaður því? Vaðlaheiðargangamódelið er ekki gott, ég get tekið undir það. En Hvalfjarðargangamódelið er mjög gott. Varðandi fyrirspurn hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar þá hef ég ekki átt samtal eftir útboð, en á undanförnum árum hafa mjög margir hangið á hurðinni og hvatt til þessara verka. Ég verð að segja alveg eins og er að það eru vonbrigði að sjá ekki áhuga þessara aðila raungerast í þeim framkvæmdum á verkum sem þó eru afstaðin. Svo vil ég segja við hv. málshefjanda, hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, að ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að við þurfum að fá meira fjármagn í flýtiuppbyggingu. Við þurfum miklu meira fé í viðhald á vegakerfinu sem við erum að byggja upp og einnig í vetrarþjónustuna. Ég get sagt við hv. þingmann að öllum þeim fjármunum sem þingið mun samþykkja að setja í samgöngumál mun ég koma vel fyrir. Það er næg eftirspurn og nóg af verkefnum.