Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 43. fundur,  28. feb. 2022.

sjávarspendýr.

225. mál
[17:32]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er einkar gleðilegt að geta nú við breytingar á Stjórnarráðinu tekið til endurskoðunar uppbyggingu og samspil málaflokka í nýju matvælaráðuneyti. Meðal þess sem við höfum gert þar er að setja á laggirnar fagskrifstofu sem er þverlæg á aðrar fagskrifstofur í ráðuneytinu, þ.e. snertir bæði skrifstofu sjávarútvegs, skrifstofu landbúnaðar og skrifstofu matvæla og fiskeldis. Sú skrifstofa heitir skrifstofa sjálfbærni. Þetta er með það að leiðarljósi að umfjöllun um nýtingu landgæða og sjávarauðlinda verði að vera í samræmi við hugmyndafræðina um sjálfbæra þróun og allar hennar greinar en ekki síður með þau grundvallarsjónarmið að leiðarljósi sem við höfum undirgengist í alþjóðlegum samningum, annars vegar um loftslag, sem er auðvitað eitt af stærstu viðfangsefnum nútímans, en líka samning sem ætti að ræða meira sem er samningurinn um líffræðilega fjölbreytni og er partur af því þegar við erum að tala um nytjastofna sjávar, hvort sem það eru sjávarauðlindir, fiskur eða aðrar tegundir í sjó, en líka nýtingu landgæða. Þannig að það er mitt mat að þessi grundvallarsjónarmið eigi bara sóknarfæri í Stjórnarráðinu og undir forystu minni í matvælaráðuneytinu verða þau sannarlega hornsteinn.