Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

Störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Málaflokkur fatlaðra er mikilvægur málaflokkur sem okkur ber að sinna af kostgæfni og virðingu. Sem betur fer hefur margt breyst til batnaðar á undanförnum árum, skilningur aukist og viðurkenning á því að fatlaðir eigi sama rétt og aðrir til mannsæmandi lífs eins og við hin sem erum svo heppin að vera ekki upp á aðra komin hvað varðar þjónustu og umönnun. Málaflokkur fatlaðra var á árinu 2011 færður yfir til sveitarfélaganna sem fengu aukið fjármagn með, en með lögunum frá 2018 varð mikil breyting á viðhorfi til málaflokksins. Þessi lög voru mikil framför í réttindabaráttu fatlaðs fólks og réttur hins fatlaða var aukinn verulega. Hins vegar hefur komið í ljós verulegt vanmat á kostnaði vegna þessara lagabreytinga og tölur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sýna að halli varð á málaflokknum upp á 14,2 milljarða á árinu 2021 og að uppsafnaður halli frá árinu 2018 og frá því að lögin voru samþykkt sé um 30 milljarðar. Tölur fyrir árið 2022 liggja enn ekki fyrir en bætast þá við þessa 30 milljarða. Þetta hefur gert mörgum sveitarfélögum erfitt fyrir og hefur dregið úr getu þeirra til að sinna ýmsum mikilvægum verkefnum. Þess sér hins vegar ekki stað, hvorki í fjáraukalögum fyrir árið 2022 né í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023, að verið sé að leiðrétta þessa skekkju. Í fjárlögum er að finna tillögu upp á 5 milljarða til þess að koma til móts við sveitarfélögin en miðað við áðurnefndar tölur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dugar sú upphæð einungis fyrir þriðjungi hallareksturs.

Við hljótum, virðulegi forseti, að gera þá kröfu að nægjanlegt fjármagn fylgi þeim verkefnum sem verið er að færa yfir til sveitarfélaganna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)