Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

Störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú í vikunni var alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans. Sjálfboðaliðar gegna stóru hlutverki í nútímasamfélagi. Mörg félög reiða sig alfarið eða að miklu leyti á störf þeirra. Við sjáum það t.d. í íþróttastarfi, tómstundastarfi, björgunarstarfi, foreldrafélögum og ungmennastarfi. Stór hluti samfélagsins er byggður upp af sjálfboðaliðum og það er bara alls ekki sjálfsagt. Í sumum sveitarfélögum eru sömu aðilarnir sem bera marga mismunandi hatta og eru alltaf til staðar þegar fólk vantar í verkefni. Starf sjálfboðaliðans er aðdáunarvert. Fólk leggur fram tíma sinn, vinnu og kunnáttu í þágu heildarinnar. Samfélag okkar væri litlaust ef ekki væri fyrir sjálfboðaliða. Fólk í sjálfboðaliðastarfi á skilið þakkir héðan úr ræðustól Alþingis.

Mig langar að ræða hér sérstaklega einn anga sjálfboðaliðastarfs sem er ungmennastarf. Til eru mörg félög sem eru rekin af ungmennum eða fyrir ungt fólk í sjálfboðaliðastarfi. Samstarf þeirra á milli er misjafnlega mikið enda eru félögin jafn ólík og þau eru mörg. Í mörgum tilvikum er það eina sem þau eiga sameiginlegt að vera rekin af ungu fólki. Við höfum stigið mörg skref hér á þingi í þágu ungmenna- og æskulýðsstarfs. Við höfum sett á fót æskulýðsráð, við erum með sjóði sem félög geta sótt fjármagn í, sum félög eru á fjárlögum, við höfum æskulýðslög, sem eru reyndar komin á þann stað að þau þarfnast endurskoðunar, en heildstæð stefna í málaflokknum er ekki til. Í flestum ríkjum sem við berum okkur saman við er til lögbundin ungmennastefna. Slíka stefnu höfum við ekki hér á landi.

Því vil ég hvetja hæstv. mennta- og barnamálaráðherra til að koma með tillögu að heildstæðri stefnu í málefnum ungmenna fyrir Alþingi.