Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er bara á síðu Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem samtökin létu VSÓ gera þessa greiningu á fjölda íbúða í skipulagi sveitarfélaganna. Þar eru einmitt 14.001 íbúð í samþykktu deiliskipulagi. Á næsta stigi í deiliskipulagi í vinnslu eru 10.219, á þróunarsvæði eru 15.897 og svo á framtíðarsvæði 18.439. Þetta eru tölurnar sem við höfum samkvæmt greiningum sem Samband sveitarfélaga á höfuborgarsvæðinu hefur látið gera fyrir sig af úttektaraðila. Eigum við að segja að það sé verið að ljúga að okkur? Gefum okkur að allar þessar 14.000 íbúðir séu ekki alveg tilbúnar akkúrat núna til að stinga í samband einhverjum iðnaðartækjum, að einhver hluti af þessum 14.000 sé ekki byggingarhæfur samkvæmt framkvæmdaraðilum, þá erum við samt með miklu fleiri heldur en þarf að byggja á einu ári, miklu fleiri, auðveldlega. Þannig að ég kaupi ekki þau rök að það sé lóðaskortur. Tölurnar eru einfaldlega stærri en það. Eins og ég rakti áðan eru rökin fyrir því að það hefur ekki gengið að byggja, afsakanir í rauninni — flöskuhálsinn er ekki lóðaskortur. Maður hefur hins vegar séð í tölulegum gögnum að bankarnir voru ekki að lána á tímabili, svo lánuðu þeir og svo lánuðu þeir ekki aftur, fram og til baka. Svo að auki eru það þessar ábendingar um að byggingaraðilar sitji jafnvel á einhverjum lóðum og byggi ekki. En það eru engar upplýsingar sem við höfum um að þetta stöðumat um fjölda lóða (Forseti hringir.) sé það ónákvæmt að það ætti að vera flöskuháls.