Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Það er gríðarlega áhugavert að ræða við hv. þingmann um greiningu á stöðunni og hvernig pólitíkin hérna er innan húss sem við sjáum í rauninni ekki án þess að vera innan húss. Fólk sem er utan húss sér ekki hvernig tannhjólin snúast hérna af því að það er yfirleitt alltaf eitthvað á bak við luktar dyr og trúnaði veifað um hitt og þetta. En við sem erum á bak við luktar dyr sjáum þetta í reynd og það er svo auðvelt þegar við segjum: Reynum að greina heiðarlega frá því hvernig þetta virkar, að segja: Nei, þetta er bara pólitík og orð á móti orði og verið að slá einhverjar keilur og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er svo áhugaverð umræða, afsakið.

En aðeins um þessa þróun, ég minntist á þetta í andsvari áðan við hv. þm. Bergþór Ólason, hvernig þróunin á afkomu ríkisins er búin að vera í meðhöndlun þessa fjárlagafrumvarps. Samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir neikvæðum heildarjöfnuði upp á 2,1% af vergri landsframleiðslu. Það er ekkert lítið, alls ekki. Þegar frumvarpið var lagt fram var það komið í 2,3% neikvætt. Núna eftir allar breytingartillögurnar, þrátt fyrir að efnahagshækkunin sé komin framar heldur en var búist við, þá er heildarjöfnunin -3%, eftir allt þetta. Ég þarf bara að anda dálítið djúpt þegar ég sé svona af því að ég sé heldur ekki neinar lausnir á varúðarorðum fjármálaráðs um að það sé undirliggjandi halli á sama tíma. Ég skil alveg stefnu um það að reyna að vaxa út úr kreppunni o.s.frv. en maður sér samt ekki verið að taka á þessum undirliggjandi vanda út af einmitt því að það er svo augljóst fyrir okkur hérna innan húss hvernig stjórnvöld eru ekki sammála um hvernig eigi að gera það. Þar af leiðandi er ekkert gert. (Forseti hringir.) Það er ekki einu sinni reynt að fara smá í báðar áttir eða í allar áttir, það er bara ekkert gert.