Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Hvað lýtur að því að festast inni á örorkunni, hinni kvíðvænlegu örorku, það er bara ekki raunverulegt. Jafnvel þótt það vanti á þig báða fæturna þá þarftu að koma reglulega, ert kallaður reglulega inn til tryggingalækna til þess að það sé alveg öruggt að þér hafi ekki vaxið fætur og það sé alveg öruggt að ekki sé verið að greiða þér örorkubætur og þú sért í rauninni farinn að hlaupa um. Dæmin sanna þetta. Ég þekki líka hvernig þetta er hjá vinkonu minni sem á fjölfatlaða dóttur sem er algerlega ósjálfbjarga og þarf að nýta NPA-þjónustu. Hún þurfti samt sem áður að fara með hana upp í Tryggingastofnun til þess að hægt væri að athuga hvort hún væri ekki bara farin að hlaupa um. Ég óttast það ekki að þessi stjórnvöld, sem gefa frekar lítið, finnst mér, fyrir þá sem minna mega sín í þessu samfélagi — ég hef enga ástæðu til að ætla að þau muni ekki halda áfram að reyna að kreista fólk út úr kerfinu ef þau mögulega geta. Þau eru búin að setja slíka slagbranda fyrir kerfið núna að það varð samdráttur fyrir ríkissjóð upp á ríflega 4 milljarða á síðasta ári sem þurfti ekki að greiða í nýgengi örorku, vegna þess að það eru komnir fjórir slagbrandar fyrir Tryggingastofnun. Þótt fólk sé nánast í andarslitrunum þá kemst það ekki inn á þetta kerfi í dag. Það er nánast ómögulegt. Þetta er farið að verða, í mínum huga, hv. þingmaður, eins og prúðuleikhús.