Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir góða ræðu, það kom kannski ekki á óvart. Mig langaði í fyrra andsvarinu aðeins að ræða við hv. þingmanninn um mannúð. Nú skrifaði ég grein um helgina og flutti ræðu í morgun um það hvað mér finnst vanta mikla mannúð orðið í stjórnmálum. Fyrr í þessari viku, eða hvort það væri síðustu, gátum við ekki einu sinni hunskast til þess að setja pening í matargjafir fyrir þá sem verst standa. Við virðumst geta látið eitthvað annað ráða heldur en hjartað í því sem er að gerast hér inni á þingi. Ég veit að hv. þingmaður fór í stjórnmál út af mannúð, af því að hún sá hvernig var verið að fara með fólk, hvort sem það var eldra fólk, öryrkjar eða aðrir. Ég er tiltölulega nýr, bara búinn að vera í eitt ár, og ég er að reyna að tala fyrir mannúð og ég er að reyna að tala fyrir því að við gerum hlutina. Nú hefur hv. þingmaður verið hérna, held ég, í fimm ár og spurningin frá mér er: Er eitthvað hlustað þegar við byrjum að tala um mannúð eða er það bara mammon sem fær að ráða hér inni á þingi?