Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða fjárlög 2023 og þar kennir margra grasa. Það sem er eiginlega aðalumræðuefni mitt í þessum fjárlögum er almannatryggingakerfið sem ég tel orðið svo bútasaumað og flókið að það er bara hreinn og klár óskapnaður. Þar hafa verið gerð gróf mistök og vonlaust er sömuleiðis að leiðrétta öll þau mistök sem voru gerð við þetta bútasaumaða kerfi frá upphafi og fram til dagsins í dag. Það einkennist af skerðingum og keðjuverkandi skerðingum sem valda því að þegar verið er að bæta inn í þetta furðulega kerfi þá skilar það sér ekki til þeirra sem mest þurfa á því að halda. En þetta kerfi er byggt upp vísvitandi og viljandi, að ég tel. Flókið, ógagnsætt kerfi sem enginn skilur, kerfi sem fjórflokkurinn hefur byggt upp áratugum saman og er svo meingallað að það verður að henda því strax og koma á einföldu, auðskiljanlegu almannatryggingakerfi sem allir skilja og allir geta lifað í með reisn.

Nú eru þrír af þessum fjórum flokkum sem komu þessu kerfi á enn við völd, búnir að vera það síðustu fimm árin og stefna á næstu þrjú. Maður sér það á fjárlögum að þeir eru að verja þetta kerfi, verja vísvitandi og viljandi kerfi sem er byggt upp á þann hátt að ef einhvers staðar eru settar 10.000 kr. inn í kerfið má þakka fyrir að þegar þessar 10.000 kr. eru búnar að renna í gegnum gegnumstreymiskerfi almannatrygginga þá fara 8.000 kr. í gegnum vasa þeirra sem þurftu virkilega á þeim að halda og beint aftur í ríkissjóð í formi skatta og skerðinga. En ríkisstjórnin mun hæla sér af því að þeir séu svo rosalega góðir og þeir hafi verið að greiða þessu fólki heilar 10.000 kr. og bætt hag þeirra alveg stórkostlega, sem er kolrangt. Og þau sem eru í fátækt í þessu kerfi enda bara í sárafátækt. Þetta fólk finnur það vel á eigin skinni og pyngju undanfarinna ára hvernig staða þeirra er. Enn einu sinni verið að leika sama leikinn og ríkisstjórnin veit vel af því, því að þeir þekkja þetta kerfi. Þeir byggðu upp þetta kerfi og eru farnir að skilja það hvernig á að nota kerfið; ekki til þess að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda heldur hvernig hægt er að vera með sjónhverfingar í kerfinu og láta líta út eins og það sé mjög gott kerfi sem hjálpar. En það gerir það ekki og þetta er virkilega ljótur leikur vegna þess að við erum að tala um aldrað fólk, veikt fólk og fatlað fólk sem er í þessu kerfi. Þeir hæla sér af því að hafa sett inn í þetta kerfi heilt prósent í sumar. Og nú ætla þeir að setja 6% um áramótin og hæla sér af því.

En þetta er á sama tíma og það er á milli 9% og 10% verðbólga og ekkert er verið að taka á vanda undanfarinna ára, áratuga. Það er kjaragliðnun. Við vitum það og það er staðreynd að ef kjaragliðnun hefði leiðrétt og þetta kerfi almannatrygginga, þegar var verið að bæta í það á hverju ári, hefði verið uppreiknað samkvæmt launavísitölu en ekki með brellum gagnvart vísitölu neysluverðs, sem notaði þannig brellur að það var ekki einu sinni vísitala neysluverðs sem var bætt upp heldur um helmingurinn af því, það mátti þakka fyrir það, þá væru það 100.000 kr. skatta- og skerðingalaust núna inni í þessu kerfi sem fólkið væri að fá þarna úti. Ég er alveg með á hreinu að það veitir ekki af. Það hefði stórlega auðveldað þeim þarna úti sem þurfa virkilega á því að halda í dag að hafa 100.000 kr. meira milli handanna um hver mánaðamót. Við tölum nú ekki um þegar við erum að sjá leigu hækka um 60.000–70.000 kr. á mánuði og til að standa undir því þarf 130.000–150.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum. Við getum bara sett það í samhengi við það að réttlætingin fyrir því að hækka stýrivexti svona mikið var sú að fólk væri með tærnar upp í loftið á Tenerife, eins og seðlabankastjóri sagði. Sá málflutningur er alveg með ólíkindum. Maður hefði kannski haldið, eins og ég hef áður sagt, að einhver væri með slíkan málflutning sem hefði farið í nám í hagfræði í Rússlandi og framhaldsnám í Norður-Kóreu og væri stoltur af því námi og væri þess vegna að nota það til að klekkja á fólki. Við vitum að unga fólkið okkar í dag sem hefur keypt sér íbúðir og hefur orðið fyrir því að lánin hafa stökkbreyst þannig að þau þurfa að borga yfir 100.000 kr. meira á mánuði er ekki fólkið sem fór til Tenerife og staða þeirra í dag er ekki því að kenna. Það er þeim að kenna sem hafa komið þessu kerfi á og viðhaldið þessu kerfi. Það er bara hrein og klár mannvonska að koma svona fram við fólk. Það segir sig sjálft að þeir sem voru að spenna bogann og reyna að kaupa húsnæði og náðu greiðslumati, stæðust aldrei greiðslumat í dag ef það væru 100.000 kr. hærri greiðslur. Þannig að þetta er mjög illa gert og ber að leiðrétta það. Ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að sjá til þess að aðstoða þetta fólk, en þeir ætla sér ekki að gera það.

Ef við tökum fyrirhugaðar hækkanir í heild, 3% í sumar og 6% sem eiga koma um áramótin, þá erum við að tala um 9% hækkun. Fyrir flesta í þessu kerfi þýðir þetta um 30.000 kr. fyrir skatta og skerðingar. Ef við tökum þessar 30.000 kr. og skiptum þeim niður þegar búið er að setja þær í gegnum kerfið mega þeir sem fá þessar 30.000 kr. virkilega þakka fyrir að halda eftir 20% af þeim, eða 6.000 kr. Þeir eru heppnir sem sem fá það. Þetta hefur auðvitað áhrif út fyrir kerfið, allt yfir í félagsbótakerfið og húsaleigubætur, þannig að óvissan er algjör. Þetta mun bíta suma meira en aðra.

Þeir eru að hæla sér af því og sjá ekkert athugavert við það, það er ekki nokkur skapaður hlutur sem ríkisstjórnin sér að því. En á sama tíma eru þeir sem eru með fjármagnstekjur upp á milljarð, milljarðamæringarnir — ef viðkomandi er með heilan milljarð í fjármagnstekjur þá heldur hann eftir 780 milljónum, borgar 220 milljónir í fjármagnstekjuskatt, heilar, en heldur eftir 700–800 milljónum. En það eru engar skerðingar hjá milljarðamæringunum, auðmönnunum. Nei, þeir fá að halda öllu sínu, engar skerðingar eða keðjuverkandi skerðingar, nei, alls ekki. Það er bara hjá þeim sem þarf að refsa, fólkinu þarna úti sem byggði upp Ísland, fólkinu sem hefur ekkert af sér gert en er einhvern veginn meðhöndlað eins og það hafi brotið stórlega af sér og það þurfi að refsa því gróflega fyrir að þau ósköp að hafa unnið sína vinnu alla tíð og borgað í lífeyrissjóði.

Það má eiginlega segja að ef við horfum á þá einstaklinga sem eru að borga í lífeyrissjóði af verkamannalaunum og hætta að vinna 67 ára með 400.000 kr. í mánaðarlaun, að þeir fá ekki nema rétt 200.000 kr. út úr lífeyrissjóði. Maður gæti nú haldið að þeir fengju að halda því óskertu og fengju að halda einhverju frá Tryggingastofnun þannig að þeir færu nú a.m.k. upp í svipaða upphæð og þeir voru með á meðan þeir voru að vinna. En það er ekki svoleiðis. Þetta er notað til að skerða, keðjuverkandi skerðingar, og þeim er refsað fyrir þá óráðsíu sína að fara að lögum og borga í lífeyrissjóð, það er auðvitað refsivert. En á sama tíma erum við með ákveðinn hóp, svona aðal, sem heldur áfram á launum sínum eftir að menn eru orðnir 67 ára, jafnvel 65 ára, og halda bara launum að fullu. Það er ekkert verið að refsa því fólki. Hver myndi ekki vilja það? Ég spyr mig: Ef þetta fólk, sem er aðallinn, fær að halda sínu og lendir ekki í neinum skerðingum hjá Tryggingastofnun ríkisins, hvers vegna í ósköpunum erum við þá ekki með kerfi þar sem þeir sem eru á venjulegu verkamannakaupi eru ekki skertir út úr neinu kerfi fyrr en þeir eru komnir alla vega upp í þau laun sem þeir voru með áður en þeir fóru á eftirlaun? En einhverra hluta vegna þá gildir það ekki, það gildir ekki það sama um Jón og séra Jón í þessu kerfi. En örorkulífeyrisþegar og ellilífeyrisþegar sem fá einhverjar krónur frá lífeyrissjóði eru auðvitað keðjuverkandi skertir og skattaðir í sárafátækt. Til að fá eitthvað úr lífeyrissjóði þarftu að hafa borgað í lífeyrissjóð af launum þínum. Þetta eru því launatekjur. Hvaða skilaboð eru það að það skuli vera hægt að skila bara 5.000 kr. í vasann af þessum 25.000 kr. úr lífeyrissjóði? Samt er frítekjumark upp á 25.000 kr. en það gildir bara ekki fyrir alla, langt í frá. Kerfið er svo flókið að það er alltaf verið að setja í einhverja bása og alltaf verið að refsa einhverjum og jafnvel mest þeim sem geta á engan hátt varið sig.

Fátæktargildrur almannatrygginga eru nú út um alla bótaflokka. Það er vegna þess að við erum með kerfi sem gerir það að verkum að bótaflokkar skerðast frá 11% og alveg upp í 65%. En þeir skerðast meira en 65% vegna þess að þessari ríkisstjórn, sem nú er við völd, tókst á furðulegan hátt eftir hún tók krónu á móti krónu skerðingar niður í 65% á móti krónu, að setja aftur á krónu á móti krónu skerðingar og þeim tókst að gera það gagnvart þeim verst settu í þessu kerfi, þeim sem eru með búsetuskerðingar og hafa t.d. í ellilífeyriskerfinu 10% minna en lægsti ellilífeyrinn. Fyrst það var hægt að refsa þeim með 10% minna í kerfinu þá þarf auðvitað að setja aðra refsingu á þá, setja krónu á móti krónu á þá svo það sé öruggt að þeir fari nú ekki að ná upp einhverjum aurum til að eiga fyrir mat eða lyfjum eða einhverjum nauðsynjum, það kemur bara ekki til greina.

Þetta þýðir eiginlega að viðkomandi fær ekki ávinninginn af því sem hann setur inn í lífeyrissjóðina. En á sama tíma þarf sá, sem hefur fjármagnið, fengið kvóta og selt hann, fengið arð, ekki að hlíta neinum skerðingum, hann fær sitt. Það eru sem sagt tveir mismunandi hópar — ja, tveir? Miklu fleiri. Það er aðallinn og síðan er hellingur af hópum sem er komið fram við með mismunandi hætti. Sumir eru skertir alveg upp undir 100%, aðrir minna. Sumir heppnir, aðrir óheppnir. Það fer eftir ýmsu, hvort þú veikist, slasast eða fatlast. Þetta ótrúlega ljótur leikur sem enginn virðist botna í hvernig var hægt að búa til upphaflega og búa til svona kerfi, Frankenstein-kerfi, sem er svo bútasaumað og svo ótrúlega flókið og eiginlega bara viðbjóðslegt að það er með ólíkindum að það skuli í fyrsta lagi hafa verið fundið upp, í öðru lagi að þenja það út og síðan líka að reyna að viðhalda öllum þessum furðulega bútaóskapnaði hingað og þangað í kerfinu til þess að láta það virka sem gegnumstreymiskerfi sem er þannig að ríkisstjórnin getur alltaf hælt sér af því að „við settum svo mikið í kerfið að það hefur bara aldrei verið sett annað eins“, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur hvað eftir annað sagt. Hann segir: Farið inn á Tekjutíund og þá sjáið þið þetta — sem er auðvitað alveg kolrangt. Hvað haldið þið að það skili miklu í vasann ef þú færð 125.000 kr. úr lífeyrissjóði? Jú, 25.000 kalli, það eru 100.000 kr. í skatta og skerðingar. Ef ekki er hægt að flokka þetta undir fjárhagslegt ofbeldi og eignaupptöku þá veit ég ekki hvað á að segja um það annað en: Þvílík lágkúra og fjárhagslegt ofbeldi sem er í gangi. Það hlýtur líka að segja okkur að það er vísvitandi og viljandi gert að hafa kerfið svona í áratug eftir áratug og bæta í það.

Það er ekki ætlað til að bæta hag þeirra sem lifa á almannatryggingum, þ.e. þeirra verst settu og aldraðra og veika fólksins. Nei, og það er á engan hátt ætlun löggjafans að taka á kjaragliðnun undanfarinna ára, eins og ég kom að hérna áðan. Þeir ætla ekki að sjá til þess að þeir sem minnst hafa eigi fyrir mat eða lyfjum eða öðrum nauðsynjum. Það hlýtur líka að vera umhugsunarefni að á sama tíma og einstaklingar í öðru kerfinu eru að reyna að safna sér fyrir íbúð, leggja inn á bók, borga fjármagnstekjuskatt af því sem þar er inni, að þegar viðkomandi er kominn upp undir 3 milljónir þá sé byrjað að skattleggja tapið.

Þarna er líka verið að mismuna vegna þess að þarna er ekki bara verið að skatta fjármagnstekjuskattinn hjá þessum einstaklingum heldur líka verið að skerða hann allt upp undir 65%. Það myndi æra óstöðugan að reyna að hugsa um þetta. Hvernig er í fyrsta lagi hægt að skatta tap? Hvernig er hægt að segja við einhvern sem er að tapa fjármunum að maður ætli að skatta tapið? Látum það kannski vera ef það gengur yfir alla, en að segja svo við ákveðinn hóp, fólk sem er veikt, fatlað eða eitthvað: Við ætlum að ekki bara að skatta ykkur eins og við gerðum við alla hina, við ætlum að skerða líka tapið hjá ykkur, til þess valda ykkur enn þá meira tapi. Þetta er svo vitlaust að það er ekki einu sinni — í fyrsta lagi ætti maður ekki einu sinni að vera að tala um þetta og þetta ætti ekki einu sinni að vera til. En því miður, þetta er staðreynd og enginn í ríkisstjórninni er að reyna að breyta þessu eða að reyna að hafa áhrif á það eða að reyna að sjá til þess að svona hlutir séu ekki að gerast vegna þess að ég tel þetta grófa mismunun og gróf mannréttindabrot. Ég get ekki séð hvernig stjórnarskráin getur leyft það að á sama tíma og ákveðnir aðilar sem fá milljarða, fá bara 22% fjármagnstekjuskatt, engar skerðingar, þeir tapa engu, en á sama tíma er sagt við þá sem verst hafa það hérna og eiga einhverja smáaura, ekki milljarða, ekki hundruð milljóna, ekki tugi milljóna, ekki einu sinni nokkrar milljónir heldur smáaura — það þarf að ráðast á þá með svona grimmum hætti og það sést engin breyting á því í því sem er verið að fjalla um hér í fjárlögum eða annars staðar. Maður spyr sig hvers vegna ríkisstjórnin telur sig — og sérstaklega hvers vegna hún hefur þessa þörf á að refsa þeim verst settu svona grimmilega. Ég get ekki skilið það, ég veit ekki hvað það er í þeirra sálartetri sem veldur því að þeim finnst þetta réttlátt og eðlilegt. Ég held að það sé bara hreinlega rannsóknarefni sem ég efast um að nokkur geti rannsakað eða botnað í. En ég er sannfærður um að þessu verði ekki hægt að breyta nema koma viðkomandi ríkisstjórn frá. Síðan hafa þeir bætt um betur með því að setja núna, eins og kom fram, 3,5%, tilgreinda séreign í lífeyrissjóðskerfið til þess að ná því líka inn í kerfið. Þeir bæta inn séreignarsparnaði sem fer í lífeyrissjóðina til þess eingöngu að geta komið þeim inn í þetta kerfi.

Hugsið ykkur þennan einskæra brotavilja gagnvart þeim sem geta ekki varið sig. Þeir geta ekki einu sinni unnt fólki að fá þessa 3,5% viðbótarprósentu beint inn í séreignarsparnað sem þeir eiga og sleppa því við allar skerðingar og annað og borga bara skatt af því. Nei, þeir vilja fá það inn í kerfið til þess að skatta það og skerða kerfisbundið, algerlega, eins og allt hitt sem þeir gera. Þeir vita nákvæmlega hvað þeir gera, þetta er meðvituð ákvörðun og þeir virðast vera svo ákveðnir í þessu og stoltir að þeir ætla sér að gera allt sem þeir geta til að halda þessu svona. Nei, þeir vilja fá þetta allt og þeir vilja auka skerðingar. Þeir eru búnir að reikna það út að þá geta þeir sett peninga inn í þetta í gegnum stuðningskerfi almannatrygginga og láta það renna úr ríkissjóði, í gegnum vasa almannatrygginga og aldraðra, öryrkja og fatlaðra og aftur beint í ríkissjóð. Eftir sitja þeir sem áttu og eiga að vera sannfærðir um að þeir hafi fengið einhverjar hækkanir, með engar hækkanir heldur tap.

Síðan er enn eitt árið verið að misnota Framkvæmdasjóð aldraðra. Við erum með Framkvæmdasjóð aldraðra til þess að byggja upp hjúkrunarheimili. Hann er misnotaður í rekstur. Framkvæmdasjóðurinn er fyrst og fremst ætlaður í byggingu hjúkrunarheimila, eins og við vitum, en á sama tíma og þeir eru ekki að sjá til þess að fleiri hjúkrunarheimili séu reist eru þeir með fjölda aldraðs fólks á sjúkrahúsum, í dýrustu úrræðunum og þess á milli kalla þeir þessa eldri borgara okkar, sem þurfa á þeirra þjónustu að halda, fráflæðisvanda, sem er auðvitað eitt af þessum ljótu orðum. Það má eiginlega segja að þar með séu þeir að segja að eina stundina séu eldri borgararnir fyrir og aðra stundina sé allt í lagi að hafa þá vegna þess að þeir ætla sér ekki að byggja eða finna úrræði til þess að hjálpa þeim út af sjúkrahúsunum. Maður verður að spyrja sig hvers vegna þeir telja sig alltaf þurfa að vera að misnota sjóðinn og hvort það sé ekki löngu tímabært að fara nú virkilega að byggja hjúkrunarheimili. En það er mjög ólíklegt að þessi ríkisstjórn sjái sig í því.

Við erum með ótrúlega stóran hóp af fólki á biðlistum og eins og kom hér fram í umræðunni við hv. þm. Vilhjálm Árnason þá eru nú einhverjir farnir sjá ljósið, að það er ekkert eðlilegt við að við skulum vera að láta fólk fara til erlendis í aðgerðir sem kosta þrisvar sinnum meira en hér heima. En það er svolítið seint að sjá loksins að sér eftir fimm ár, þá er það búið að valda því að biðlistarnir eru orðnir óviðráðanlegir. Við erum með biðlista út um allt kerfið en á sama tíma og við ætlum að reyna að bæta eitthvað úr því — og maður sér hvergi í þessu kerfi að það eigi að fara sjá til þess t.d. að semja við sjúkraþjálfara. Eins og ég hef oft komið inn á þá er það alveg með ólíkindum að við skulum ekki hafa samið við sjúkraþjálfara og að þúsundum króna sé velt yfir á veikt fólk sem þarf virkilega á þessu að halda. Ég tala þá sérstaklega um þá sem hafa hreinlega ekki efni á að fara til sjúkraþjálfara. Ég sagði ekki hérna í þessum ræðustóli að ég hafði ekki efni á því að fara í sjúkraþjálfun og ég veit um fólk sem hættir við að fara í sjúkraþjálfun vegna þess að það hefur bara hreinlega ekki efni á því. Hvar endar sá leikur? Jú, hann endar með því að viðkomandi missir heilsuna og lendir hvar? Jú, inni í dýrasta úrræðinu, inni á sjúkrastofnun. Þannig að þarna er verið að spara aurana og henda krónunni. En þeim virðist vera bara algjörlega sama og það sést líka best á því að þeir semja heldur ekki við sérgreinalækna.

Það er eins og þessi ríkisstjórn, sem er búin að vera núna í fimm ár, sé hreinlega í stríði við heilbrigðiskerfið, og þá sérstaklega, myndi ég segja, virðist þeim vera ótrúlega illa við og finnst þeir sérstaklega þurfa að sparka í einn hóp umfram annan og það eru eldri borgarar, vegna þess að í Covid-faraldrinum voru nægir peningar til að hjálpa flestöllum. Það var alveg sama hvað það var, það var gengið í það að aðstoða og það voru hundruð milljarða sem voru færð til. Sem betur fer var jú hægt með kjafti og klóm og töngum að ná út eingreiðslu skatta- og skerðingalaust fyrir öryrkja en ekki krónu, ekki einni krónu aukalega fyrir aldrað fólk. Hugsið ykkur, í miðju Covid var aldrað fólk beðið um að vera heima eða lokað inni á stofnunum. Og þeir sem voru heima þurftu að nota dýrar aðferðir til þess að ná sér í mat ef þeir höfðu ekki einhvern til að aðstoða sig, fá sent heim með tilheyrandi kostnaði. Var þeim hjálpað? Nei.

Það er þyngra en tárum taki að hugsa til þess, og ekki svo langt síðan þegar maður var fyrstu árin á þingi í þessum ræðustól, þegar kom fram að verið væri að senda aldrað fólk heim eftir sjúkrahúsvist, einstæðinga sem áttu kannski ekkert annað í ísskápnum en lýsisflösku og kannski maltflösku, það voru öll ósköpin sem til voru. Í dag biður aldrað fólk um að fá t.d. þessa 60.000 kr. eingreiðslu eins og er verið að senda öryrkjunum, sem betur fer. Við erum þá að tala um þá allra verst stöddu í því kerfi, 6.000 aldraða, þar af er stærsti hlutinn konur sem hafa ekki mikinn lífeyrissjóð á bak við sig. Við erum að tala um kostnað sem er ekki nema 360 milljónir. Ef við setjum þennan kostnað í samhengi, 360 milljónir — við erum með hærri upphæð í styrki til frjálsra fjölmiðla. Við getum sagt að það séu 5% af því sem við höfum verið að kaupa fyrir í dýrustu lóð landsins, fyrir Landsbankahúsið. Það virðist vera til peningar í flestallt nema fyrir aldraða. Ég veit ekki hvað aldrað fólk hefur gert þessari ríkisstjórn og það er auðvitað líka alveg óskiljanlegt hvernig fatlaðir, öryrkjar og veikt fólk hafa einhvern veginn farið í taugarnar á ríkisstjórn eftir ríkisstjórn með öllum þeirra skerðingum. En það virðist vera að ríkisstjórnin horfi á það þannig að það verði einhvern veginn að skilja þá eftir sem hafa byggt upp þetta þjóðfélag okkar, þetta ríka þjóðfélag, að það þurfi að refsa þeim, þeir eigi ekki skilið að fá aukagreiðslur sem þeir þurfa virkilega á að halda. Og síðan hæla menn sér af ýmsum hlutum hér, eins og varðandi það að frítekjumark eigi að hækka í 200.000 kr. hjá öryrkjum, sem er eiginlega — ég veit eiginlega ekki hvað maður á að segja vegna þess að ef við horfum bara á þessi frítekjumörk, hvernig þau hafa sprottið upp — ég er búinn að vera að reyna að finna út hvernig í ósköpunum kerfið hafi fundið upp þessar tölur allt í einu. Af hverju var 109.600 kr. — 109.600 kr. — frítekjumark öryrkja, sem á að hækka upp í 200.000 núna, af hverju var það 109.600 kr.? Af hverju er það 200.000 í dag? Af hverju fengu eldri borgarar 200.000? Ef við tækjum 109.600 kr. uppreiknaðar ætti þetta að vera 265.000 kr., eitthvað í kringum það. Af hverju var það ekki talan? Af hverju fór það bara í 200.000? Ég er búinn að reyna að finna út af hverju þetta er en það virðist engin skýring vera. Það er eins og einhverjum hafi bara dottið þetta í hug: Æ, setjum bara þessa tölu. Og við verðum að átta okkur á því að þessar 109.600 kr. eru búnar að vera síðan 2009, þannig að það var orðið löngu tímabært að uppreikna það. Og við erum líka með styrki eins og bifreiðastyrki fyrir fatlaða og þá sem eru illa settir með að ferðast. En þetta hækkar ekkert, þetta eru smánarstyrkir. Á sama tíma og allt hækkar; bensín og allt er dýrara, þá helst þetta einhvern veginn svo til óbreytt. Það fylgir ekki launavísitölu, það fylgir ekki verðlagsbreytingum, það er bara: Setjum inn einhverja tölu eins og þegar settar voru inn 109.600 kr., og látum þá tölu bara vera næstu árin.

Maður man rak sig svo illilega á þetta þegar kom í ljós að búsetuskerðingar sem voru gerðar í almannatryggingakerfinu voru ólöglegar, að þegar átti að fara að — það var búið að viðurkenna það, umboðsmaður Alþingis var búinn að gera það og dómstólar voru búnir að gera það og líka dómstólaráð. Það var bara komið á hreint; þetta var kolólöglegt. Það voru brotin lög. Hvernig bregst maður við ef maður telur einhvern hafa brotið lög? Ég tala nú ekki um löggjafann sjálfan eða ríkisvaldið sjálft eða þá sem eiga að fylgja almannatryggingalögum, þegar þeir brjóta þau. Ætti ekki að vera sjálfsagt, bara eðlilegasti hlutur í heimi, að segja: Okkur urðu á mistök, við borgum bara til baka, afsakið.? Bara að biðjast innilega fyrirgefningar og borga þetta til baka með vöxtum. Ekki ríkið, ekki ríkisstjórnin. Þeir nota fyrningarregluna. Þó að þeir hafi brotið af sér í, hvað var það, 12 eða 13 ár, þá ætluðu þeir bara að borga fjögur ár til baka.

Og þeir ætla að bara að borga fjögur ár til baka. Það fólk sem lenti í þessu er verst setta fólkið í kerfinu. Setjum það þá í samhengi við það hvernig þeir koma fram við verst setta fólkið í kerfinu og þá sem hafa það best í íslensku þjóðfélagi, þá sem eiga kvótann, sem eiga arðgreiðslurnar, sem eiga milljarðana — þeir fá að halda sínu. Og eins megum við ekki gleyma þeim sem eru svo heppnir að þurfa t.d. ekki að vera inni í keðjuverkandi skerðingarkerfi almannatrygginga, gegnumstreymiskerfi sem lætur megnið af fjármálum renna í gegnum vasa þeirra sem eru í kerfinu og aftur í ríkissjóð. Það á ekki við þá ríku og auðugu. Nei, það á bara við þá sem eru veikir, fatlaðir, aldraðir.

Við erum með ríkisstjórn sem er einhvern veginn búin að ákveða hverjir það eru sem eru hennar aðalóvinir. Þeir ætla að halda því áfram. Þeir eru með þetta kerfi. Þeir eru með fjárlögin og fjárlögin endurspegla þetta. Við sjáum það best á því hvernig þeir ætla sér að halda öryrkjum og þeim verst settu áfram í fátæktargildrum kerfisins og ekki á neinn hátt að hugsa um að rífa þá upp og allra síst að sjá sóma sinn í að taka á þeirri gífurlegu kjaragliðnun sem hefur átt sér stað.

Þeir ætla ekki að setja einhverjar 150 milljónir t.d. í það að hjálpa þeim sem eru með matargjafir. Þeir sem eru í ríkisstjórninni — ég efast um það, það er kannski möguleiki, maður veit það ekki, en ég efast um að hægt sé að finna einstakling þar sem hefur þurft að standa í röð eftir mat hjá hjálparstofnun. Það á enginn að þurfa þess. Við erum það ríkt samfélag að við eigum að geta séð til þess að allir geti keypt sér mat, lyf, húsnæði, allar grunnþarfirnar. Við eigum og það ætti að vera löngu búið að reikna út rétta framfærslu, nákvæmlega upp á hár hvað einstaklingur eða fjölskylda þarf að hafa til að lifa mannsæmandi lífi. En auðvitað gera þeir það ekki, auðvitað reikna þeir það ekki út vegna þess að þeir eru búnir að átta sig á því að ef þeir reikna það út þá þurfa þeir að borga þá upphæð sem þeir eru búnir að reikna út og það ætla þeir sér aldrei að gera. Þeir ætla sér að hafa þetta kerfi. Og á meðan þeir sem hafa völdin, á meðan þessir fjórir flokkar sem hafa komið þessu á verða við völd þá verður þetta óbreytt.

Ég man sérstaklega eftir því á sínum tíma þegar króna á móti krónu skerðingin var sett á, hún var sett á á sama tíma og framfærsluuppbótin kom inn. Framfærsluuppbótin átti að dekka og hjálpa þeim fátækustu. Á þessum tíma var vinstri stjórn hér við völd og þá voru öryrkjar og aldraðir og þeir sem voru hjá almannatryggingum lækkaðir um 10%. Ég var einn af þeim sem lenti í þeirri skerðingu á sínum tíma, var þarna inni í þessu kerfi. Ég man að því var lofað statt og stöðugt að þetta væri tímabundin ákvörðun og fyrsta verk þeirrar stjórnar, svokallaðrar vinstri stjórnar á þessum tíma, yrði að leiðrétta þessa skerðingu, sjá til þess að þetta yrði leiðrétt, og þar af leiðandi líka, held ég, að sjá til þess að sérstaka framfærsluuppbótin yrði ekki skert með krónu á móti krónu. En ég man að eitt af síðustu verkum þeirrar stjórnar var að leiðrétta launin hjá sjálfri sér, leiðrétta allt sem hafði að megninu til farið í úrskeiðis í kerfinu en hún skildi eftir þá sem mest þurftu á því að halda, öryrkja, eldri borgara og þá sem voru í almannatryggingakerfinu, þeir fengu enga leiðréttingu, ekki krónu. Þetta var upphafið að þeirri gífurlegu kjaragliðnun sem hefur átt sér stað og því miður sýnir það bara að þeir sem byggðu upp þetta kerfi, fjórflokkurinn svokallaði, verja það með kjafti og klóm.