Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[22:02]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir andsvarið og spurninguna. Því sem ég kemst næst borgar Tryggingastofnun, sem er partur af ríkinu, fyrir innlögn 1.600 einstaklinga sem fara á Vog en það fara 2.300 í gegn. Til að svara spurningunni þá held ég að þetta sé á einhvern hátt skilningsleysi og kannski þrái við að viðurkenna raunverulega hversu alvarlegur sjúkdómurinn er, af því að hann er háalvarlegur, hann er stórhættulegur. Þeir segja læknarnir á Vogi að langverst förnu sjúklingarnir sem koma þar inn séu þeir sem drekka bara áfengi og eru ekki í neinum ólöglegum eða löglegum fíkniefnum, hvort sem þau eru í gefin út í apóteki eða keypt á götunni. Það sagði einu sinni við mig maður, sérfræðingur í Ameríku: Ef ég hefði tíu fíkniefni á borðinu hérna hjá mér, heróín, kókaín, amfetamín, metamfetamín og hvað það heitir allt saman, og það tíunda væri áfengi og ég mætti bara taka eitt út af borðin myndi ég taka áfengi fyrst af öllu, það er hættulegast. Það er þetta fíkniefni sem er hættulegast og það er viðurkennt og menn vilja bara fá að vera í friði við að neyta þess. Og jú auðvitað, það verða ekki allir fíklar sem drekka, það liggur ljóst fyrir, en það verða samt sem áður 10–15% af þeim sem byrja að drekka á einhverju stigi málsins háð áfengi. Það er bara staðreynd sem við verðum að díla við og því verður ekki breytt.