Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:29]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi einmitt orðið stöðugleiki, sem alla vega einn flokkur á þingi hefur reynt að eigna sér rosalega mikið. En við sjáum það bara ef við horfum á sögulegar tölur að stöðugleikinn er ekki til í neinum mælanlegum stærðum miðað við hvað sá flokkur reynir að halda fram, því að það er líka stöðugleiki að vita af því að þjónusta og réttindi séu aðgengileg. Við eigum að sjálfsögðu að vera ráðdeildarsöm og krefjast þess að verið sé að vinna þá þjónustu á skilvirkan og hagkvæman hátt, ekki bara henda pening í verkefnin og vonast til að þau verði betri og leysist o.s.frv. En það er stöðuga verkefnið. Grunnverkefnið er að vita almennt séð hvað kostar að setja t.d. lög um NPA-þjónustu, ekki bara segja að hún muni kosta þetta og um leið og kostnaðurinn er orðinn meiri þá hættum við að veita þá þjónustu. Það gengur ekki. Það veldur óstöðugleika og óvissu hjá þeim sem eiga rétt á því að fá þá þjónustu, alveg nákvæmlega eins og við göngum að því félagslega öryggisneti að ef við missum vinnuna fáum við atvinnuleysisbætur. Þá er ekki hægt að segja bara: Nei, heyrðu, fjárheimildin er búin fyrir atvinnuleysisbótunum. Það sóttu svo margir um. Við erum ekki með það þannig þar en við erum með það þannig í NPA-þjónustunni, við erum með það þannig varðandi niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu, þegar einhver kemur að sækja sér tíma þá er sagt: Nei, fjárheimildin er bara búin. Það komu fullt af öðrum á undan þér í biðröðina og kláruðu alla niðurgreiðslufjárheimildina. Þú mátt ekki fá þessi réttindi núna því að aðrir eru búnir að fá þau. Það er bara mismunun. Mér finnst þetta einhvern veginn vera kjarninn í því sem við þurfum að búa til sem stöðugleika, að hætta að toga útgjöld og tekjur ríkisins fram og til baka eftir því hvernig efnahagssveiflan er, þegar við þurfum líka stöðugleika í aðgengi að þessari þjónustu og réttindum sem höfum sett með lögum.