Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[00:31]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hverju einasta orði sem kom fram hjá hv. þingmanni varðandi mikilvægi þess að halda ákveðnum stöðugleika þegar kemur að útgjöldum vegna félagslegra réttinda og mikilvægrar almannaþjónustu, grunnþjónustu. Hins vegar, af því að hér er talað um stöðugleika þegar kemur að tekjum og gjöldum ríkisins og að þetta eigi ekki alltaf að sveiflast bara út frá hagsveiflunni hverju sinni, að þá er ég samt einlægur keynesisti og trúi því mjög innilega að ríkið geti einmitt dempað sveiflur í efnahagslífinu gegnum tekjur og gjöld. Það er einmitt mikilvægt að þá sé velferðarkerfið ekki notað sem hagstjórnartæki, að við séum ekki, eins og hv. þingmaður nefnir, að svipta fólk réttinum til NPA-þjónustu til að sporna gegn þenslu. Það er auðvitað einhver vitleysa. Ég tek undir það með hv. þingmanni að um leið og við viljum tryggja efnahagslegan stöðugleika í hagfræðilegum skilningi þá skiptir stöðugleiki almannaþjónustunnar, stöðugleiki grunnþjónustu og félagslegra réttinda jafnvel enn meira máli.