Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[02:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig grunar að ástæðan fyrir því að verið sé að halda okkur hér fram á nótt sé sú sem ég heyrði þegar fjölmiðlar byrjuðu að hringja í mig í dag og spyrja hvort við værum í málþófi. Mér þótti það athyglisvert vegna þess að nú er 2. umr. um fjárlög fyrir næsta ár að ljúka og ég er ekki búin að taka til máls einu sinni. Ég á eftir að halda mína fyrstu ræðu í þessu máli. Er ég í málþófi? Nei, ég er ekki í málþófi. Það sem þetta segir mér er að okkar innlegg í umræðuna er til málamynda, það litið á það eins og það sé til málamynda. Það er engin umræða í þessari viku sem hefur farið fram úr einhverju hófi. Það er ekkert sem bendir til þess að það sé neitt málþóf í gangi hér. Um leið og við komum hérna upp og höldum meira en eina eða tvær ræður í einu máli þá er talað um málþóf. Það skiptir engu máli hvað við höfum að segja. Ég biðla enn einu sinni til forseta um að sýna þessari umræðu (Forseti hringir.)og sýna okkur þá virðingu að leyfa okkur að ræða þetta mál í dagsbirtu.