154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:18]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. formann fjárlaganefndar aðeins út í efnahagsforsendurnar að baki fjárlagafrumvarpinu. Ég held að við séum öll eða ættum öll í þessum sal að vera sammála um að stærsta verkefni okkar í þessu frumvarpi sé glíman við verðbólguna og stærsta spurningin sé einfaldlega sú hvort fjárlagafrumvarpið hafi burði í það að kæla hagkerfið, draga úr verðbólgu og vinna með peningastefnunni. Síðan er kannski sú pólitíska spurning hvernig byrðunum er dreift í þessu verkefni. Ég geri miklar athugasemdir við það að nær öllum kostnaði af verðbólgu og vaxtahækkunum sé núna er velt yfir á ungt fólk og barnafjölskyldur og það sé enginn stuðningur við þennan hóp, fólkið sem trúði t.d. á hið svokallaða lágvaxtaskeið. En í fyrstu atrennu langar mig að spyrja út í efnahagsforsendurnar.

Þjóðin spyr hvers vegna það þurfi þrefalt hærri vexti á Íslandi og fær jafnan það svar að það sé vegna þess að hér sé svo mikill hagvöxtur. Frá árinu 2017 hefur vissulega verið hagvöxtur hér á landi og nokkuð kraftmikill en þegar við skoðum hann á hvern íbúa þá sjáum við að svo er ekki. Íbúafjöldi landsins hefur á sama tíma margfaldast, 23-faldast á við það sem er að gerast annars staðar í Evrópu, þannig að það er fyrst og fremst fólksfjölgun á bak við hagvöxtinn. Þetta er innflutt vinnuafl, m.a. í ferðaþjónustu og byggingargeiranum og allt gott og blessað með það. Þessi mikla fólksfjölgun er ástæða þess að raunverð húsnæðisverðs hefur tvöfaldast á Íslandi undanfarin tíu ár. Meiri hlutinn talar um í áliti sínu um fólksfjölgun í samhengi við efnahagsforsendur og nefnir síðan að hagvöxtur á mann á næsta ári geti orðið neikvæður og flaggar framleiðni, skorti á framleiðnivexti sem ég hef mjög miklar áhyggjur af í samhengi við hvaða framtíðarmynd er verið þar að teikna upp fyrir Ísland ef hagvöxtur á mann er orðinn neikvæður og framleiðnin fer lækkandi. (Forseti hringir.) Ég spyr formann nefndarinnar: Hvað er það í þessu frumvarpi sem speglar aðgerðir til að vinna gegn þessari þróun?