154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott seinna andsvar. Ég geri mér grein fyrir því að á Ítalíu breyttu þeir upphaflegu tillögunni hjá sér um hvalrekaskattinn. Við erum ekkert að horfa á Ítalíu hvað þennan skatt varðar en þeir breyttu honum og lækkuðu, það er alveg hárrétt, og hann var ekki eins og var upphaflega ætlað. Bankakerfið á Ítalíu er allt, allt öðruvísi á Íslandi. Það eru reyndar allt of litlir bankar þar, að mörgu leyti ekki nógu gott bankakerfi, ekki nógu hagkvæmt. Það breytir því ekki að við gerum þessar tillögur um hækkun í ljósi hins stórkostlega hagnaðar, samkeppnisleysis sem er vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki haft eigendastefnu sem byggir á því að keyra á samkeppni á þessum markaði. Það er ekki verið að gera það. Þetta er sjálftaka á hagnaði að mörgu leyti. Og hvernig má það vera að það er séð ofsjónum yfir því að við séum að hækka bankaskatt þegar er verið að hækka álögur á heimilin í landinu með hækkun á húsnæðislánum um tugi prósenta? Hvar eru talsmenn fólksins sem er með öll þessi húsnæðislán? (Forseti hringir.) Þetta mun ekki þurfa að leiða til þess að vaxtamunur muni hækka. Lækkunin hafði ekki mikil áhrif. Þessa hækkun á ekki að þurfa (Forseti hringir.) að gera það ef það væri alvörusamkeppni í landinu og ríkisstjórnin á að sjá til þess að það sé samkeppni á íslenskum bankamarkaði.