154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka fyrir störfin hingað til í nefndinni. Hún hefur ekki lokið alveg vinnu núna fyrir áramót þar sem við eigum eftir að taka fyrir 3. umræðu þessara fjárlaga, þar sem mér skilst að einhverjar breytingar komi inn, og eins fjáraukann en þetta hefur að mörgu leyti verið býsna ánægjulegt samstarf þó að fólk hafi stundum greint á.

Mig langar að nýta tækifærið núna við þessa umræðu fjárlaga til að setja þau kannski í svolítið stærra samhengi, samhengi sem við náum oft ekki að ræða vegna þess að það er verið að rífast um einstakar tölur innan einstakra málaflokka, þótt vissulega hafi Samfylkingin skoðun á því. Ég held að það sé mikilvægt að við skoðum áhrifaþætti verðbólgu og að við skoðum líka hvernig beiting ríkisfjármála í fjárlögum næsta árs og þessi komandi ár geti stuðlað að auknum efnahagslegum stöðugleika og betri kjörum fyrir fólkið í landinu, því þetta hlýtur auðvitað að vera stóra hagsmunamálið í umhverfi þar sem verðbólga er þrálát og vaxtastigið er rúmlega 9%. Það má í raun segja að við séum hálfpartinn með verðbólguna í fanginu þessa dagana og það á auðvitað við um ríkissjóð og við þurfum að velta því fyrir okkur hvað það er sem veldur þessari miklu verðbólgu og háu vaxtastigi. Þetta ætti að mínu mati að vera lykilspurning núna við afgreiðslu fjárlaganna af því að þessar aðgerðir sem verið er að ráðast í og það hvernig ríkissjóði er beitt þarf að tryggja í fyrsta lagi að við komumst út úr þessu ástandi og síðan í öðru lagi að við komumst ekki skjótt í það aftur.

Ef við lítum aðeins til þeirra þátta sem við getum haft hér áhrif á þá er ég fyrst og fremst að hugsa um innlendan verðþrýsting. Má þar nefna húsnæðisverð og launahækkanir. Það má líka tala um álagningu á vöru og þjónustu og gjaldskrárhækkanir á vegum hins opinbera. Ég vil í þessu samhengi benda á að Seðlabankinn benti nýverið á í Peningamálum sínum að hækkun launakostnaðar hafi vegið þyngra í verðbólgu síðustu ára en aukinn hagnaður fyrirtækja en að framlag beggja stærða hafi þó verið meira en sögulega séð. Þó væri ekki að sjá að aukna verðbólgu mætti rekja til hærri álagningar. Hér eru auðvitað í Peningamálum verið að álykta heilt yfir um atvinnugreinar.

Það hefur vissulega hægt á húsnæðisverðhækkunum en húsnæðisverð vegur enn þá mjög þungt og við verðum að athuga að uppsafnaðar hækkanir hafa auðvitað áhrif á kjarakröfur fólks, jafnvel þótt hækkunarhrinan sé farin að hægja á sér. Þá losna kjarasamningar á næstu vikum, þar sem markmiðið er að semja til langs tíma, og jafnframt berast nú fréttir af miklum gjaldskrárhækkunum sveitarfélaga um land allt.

Það eru þessir þrír þættir sem ég ætla sérstaklega að taka hérna fyrir; launahækkanir, húsnæðisverð og gjaldskrárbreytingar sveitarfélaga. Þær hafa mjög beina tengingu við efnahagsstjórn ríkisstjórnar hverju sinni. Ég bendi sérstaklega á efnahagsstjórn ríkisstjórnar vegna þess að hagstjórnarhlutverk ríkisins er umtalsvert meira en sveitarstjórna, vegna þess að það er eðlismunur á rekstri þessara stjórnsýslustiga. Nú ættu stjórnvöld því að íhuga mjög vandlega með framlagningu þessara fjárlaga hvernig megi draga úr hækkun á þessum þremur liðum, gjaldskrárhækkunum, húsnæðisverði og launahækkunum, sem annars viðhalda vítahring verðbólgu og vaxta og ekki aðeins á næsta ári heldur um ókomna tíð.

Forseti. Mig langar aðeins að tala um laun og bætur hér inni því launaliðurinn er mjög stór áhrifavaldur í íslensku efnahagslífi. Um fjórðungur, eða hátt í 30% eftir því hvernig það er reiknað, af útgjöldum ríkissjóðs er vegna launa. Hjá sveitarfélögum er hlutfallið um 50% og hjá mörgum fyrirtækjum, sérstaklega smærri félögum, eru laun líka stærsti hluti kostnaðar. Aðhaldskröfur hér og þar í ríkisrekstri blikna því mjög fljótt í samanburði við kostnað af miklum launahækkunum.

Hagstjórn undanfarinna missera, sem við höfum verið að ræða, hefur falið í sér að aðhaldinu hefur að miklu leyti verið útvistað til ókjörinna embættismanna í Seðlabankanum, og það hafa fleiri aðilar hér farið yfir í umræðunni á undanförnum klukkutíma. Þessi aðgerð, vaxtahækkunaraðgerð, felur í rauninni í sér almenna aðhaldskröfu á íslenskan almenning óháð stétt og stöðu og raunar er það svo að tekjuminnsta, eignaminnsta og skuldsettasta fólkið, unga fólkið, hefur liðið fyrir þessa stefnu enda falla vaxtahækkanir þyngst á þennan hóp á meðan skuldlítið fólk á miðjum aldri, eignamikið fólk og fólk með fjárhagslega sterkt bakland hefur sloppið langtum betur. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur áttar sig nefnilega ekki á því að kjarabætur í gegnum tilfærslukerfin okkar, hvort sem það eru barnabætur, vaxtabætur eða húsnæðisbætur, eru bestu kjarabætur sem hægt er að veita fólkinu í landinu.

Tökum sem dæmi tvo einstaklinga í sömu vinnu á sömu launum. Annar einstaklingurinn er í sambúð í eigin íbúð, á foreldra sem gátu aðstoðað viðkomandi við að koma sér inn á húsnæðismarkaðinn og er þess vegna skuldlítill. Hinn einstaklingurinn er einstæður með tvö börn og á leigumarkaði. Ef aðeins á að bæta kjör fólks í gegnum launaliðinn fá þessir tveir aðilar sömu launahækkunina þrátt fyrir að annar aðilinn finni takmarkað fyrir vaxtahækkunum, sé með tvöfaldar heimilistekjur og þurfi ekki að sjá fyrir börnum á meðan hinn fær yfir sig leiguverðshækkun ofan á þunga greiðslubyrði, þrefalt högg út frá nauðsynjavöruhækkun vegna þriggja einstaklinga á heimilinu og stendur einn undir heimilistekjunum.

Þegar laun eru hækkuð hækka þau óháð aðstæðum fólks innan sama launaflokks í sömu vinnu. Þetta er ofboðslega mikilvægt að skilja í því umhverfi sem við erum núna. Aðstæður þeirra verst settu eiga það þá til að knýja fram ýtrustu kröfur og þarna getur ríkið verið verulegur ventill á launahækkanir af því að kjarabætur í tilfærslukerfunum taka mið af aðstæðum fólks. Slíkar bætur leka ekki um kerfið enda eru þær mjög persónubundnar, ólíkt prósentuhækkunum sem eiga það til að smitast upp allan launastigann. Út á þetta ganga leikreglurnar í leikskipulaginu sem svo oft er vitnað til á Norðurlöndum, sem íslenskir ráðamenn og atvinnurekendur nefna gjarnan þegar það er ósætti um launakröfur, þ.e. að erlendis séu launahækkanir ekki endilega eins miklar og hér. En þarna skipta aðstæður máli. Það er ekki hægt að tala hér fyrir einhvers konar leikskipulagi þar sem ríkið virðir ekki leikreglurnar.

Virðulegur forseti. Stjórnarflokkarnir eru nú að fara inn í 2. umræðu fjárlaga með tillögur sem fela í sér samdrátt í úrræðum sem jafna aðstöðu fólks gagnvart núverandi efnahagsástandi. Uppleggið fyrir kjarasamninga í janúar næstkomandi, þar sem 30% af útgjöldum ríkisins m.a. eru undir, er eftirfarandi: 5.000 manns er hent út úr vaxtabótakerfinu og lækka greiðslur til vaxtabóta í heild úr 2,8 milljörðum í 2,1 milljarð, og sparar ríkið sér þar með 700 millj. kr. sem telst sem aðhald. Þessi ákvörðun, þessi sparnaður upp á 700 millj. kr., á sér stað þrátt fyrir að stýrivextir hafi hækkað úr 6% í rúmlega 9% á einu ári og verðbólga reynist þrálát. Það er ágætt fyrir fólk hér inni að hafa það í huga að þeir einstaklingar sem hingað til hafa reitt sig á vaxtabótakerfið, sem eru mjög fáir Íslendingar eða um 13.000 manns, eru tekjulægstu og eignaminnstu einstaklingarnir á landinu, ungt fólk mikið til. Þannig að hvaðan erum við að taka þessar 700 millj. kr.? Á hverjum er það aðhald að bitna? Á tekjulægsta og eignaminnsta fólkinu í landinu, þessum örfáu Íslendingum sem enn þá hljóta vaxtabætur. Þar á spara pening.

Þá er samdráttur í samþykktum fjárheimildum til húsnæðisbóta milli ára, úr 9,5 milljörðum í 9 milljarða, á sama tíma og leiguverð hefur hækkað um 4% á árinu. Við vitum það öll hér inni sem eitthvað höfum fylgst með að staða leigjenda sem nýta slíkar bætur er jafnan enn verri en hjá þeim sem hafa keypt sér eign og þá sér í lagi á tímum hækkandi verðs á nauðsynjavöru. Til viðbótar bendir allt til þess að meiri verðbólga en áður var áætluð hjá fjármálaráðuneytinu feli í sér í raunrýrnun á upphæð barnabóta til tekjulægsta hópsins á Íslandi. Þarna sér ríkisstjórnin sér leik á borði til að efna til aðhalds með því að fjarlæga nokkra milljarða úr tilfærslukerfunum okkar, sem voru orðin verulega veik fyrir, á komandi ári. Aðhaldið beinist að tekjulægsta, yngsta og viðkvæmasta hópnum.

Svona hagstjórn lýsir algeru skilningsleysi á samtryggingunni okkar, skilningsleysi á samspili ríkis, atvinnulífs og verkalýðshreyfingar sem hefur verið grundvöllur öflugra samfélaga á Norðurlöndunum og var fyrirmynd í uppbyggingu velferðarkerfisins hér heima. Það er jafnan vitnað til þess að töfralausnir séu ekki til staðar til að koma hér á stöðugleika í efnahagslífinu en fyrir öllu sé að fólki virði leikreglurnar sem eru settar. Spurningin mín er: Hvert er þó hið raunverulega leikskipulag sem ríkisstjórnin telur sig starfa eftir? Íslendingar vilja öryggi í efnahagsmálum, atvinnumálum og velferðarmálum og núverandi ríkisstjórn hefur byggt erindi sitt á stöðugleika en fylgir sjálf engum reglum þar um. Ríkisstjórn sem skilur leikreglurnar í norrænu velferðarríki skilur mikilvægi þess að mæta ekki tómhent til leiks inn í langtímakjaraviðræður þegar tilfærslukerfin eru orðin jafn veik og raun ber vitni.

Forseti. Ég vil í þessu samhengi vekja athygli á þeim sláandi tölum sem hv. fjárlaganefnd barst um þróun fyrirframgreidds erfðaskatts sem sýna að af þeim 74 milljörðum sem voru greiddir í arf fyrir fram á fyrsta helmingi þessa árs runnu 49 milljarðar áfram til efstu tíundarinnar — 49 milljarðar af 74 milljörðum. Það hverra manna þú ert skiptir nefnilega máli á Íslandi, það er ekki hægt að horfa fram hjá því. Hækkanir fasteignaverðs hafa svo ýtt undir þessa þróun og benti fjármálaráðuneytið sjálft á að aukning í fyrirframgreiddum arfi kæmi að öllum líkindum til vegna aðstæðna á húsnæðismarkaði. Við vitum að getunni til að aðstoða unga fólkið vegna íbúðakaupa er stórkostlega misskipt í landinu. Það hefur rekið fleyg á milli þeirra sem eiga sterkt fjárhagslegt bakland og þeirra sem ekki eru í slíkri stöðu og með áframhaldandi þróun mun bilið á milli þeirra breikka. Í ljósi þessarar stöðu er merkilegt að ríkisstjórnin skilji ekki mikilvægi þess að styrkja tilfærslukerfin til að standa undir kjarabótum í landinu enda eru þau kerfi best til þess fallin einmitt að taka mið af mismunandi baklandi fólks.

Virðulegi forseti. Svör forystufólks ríkisstjórnarinnar við því hvers vegna eigi að taka markviss skref í niðurfellingu vaxtabótakerfisins, eins og er verið að gera í raun í 2. umræðu fjárlaga með því að fjarlægja 700 millj. kr. út úr kerfinu, hafa verið á þann veg að kerfið ýti undir of mikla skuldsetningu og þar með eftirspurn á fasteignamarkaði. Með öðrum orðum vinni það í rauninni á móti vaxtahækkunum og þar með aðhaldi Seðlabankans. Að hluta til er þetta rétt en það er algjörlega háð umfangi slíkra aðgerða og háð því hvaða aðrir kostir eru í boði hverju sinni.

Sama fólkið og vill draga úr vaxtabótum vegna umræddra eftirspurnaráhrifa, umræddra eftirspurnaráhrifa hjá tekjulægsta og eignaminnsta fólkinu í landinu sem virðist bera aðalábyrgð á þenslunni í landinu, talar nú fyrir því að fólk bjargi sér með því að færa sig yfir í verðtryggð lán. Þetta hefur heyrst frá seðlabankastjóra sem og fyrrverandi fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Áhrifin af slíkri skuldbreytingu eru í raun þau sömu og af vaxtabótum fyrir utan það að allir á Íslandi, óháð baklandi og fjárhagslegri stöðu, geta fært sig yfir í verðtryggt lán á meðan hugmyndin á bak við vaxtabótakerfið er að stilla það af eftir tekju- og eignastöðu fólks. Þá frestar yfirfærsla yfir í verðtryggð lán bara vandanum með því að rýra eignastöðu fólks í viðkvæmustu stöðunni og skapar þannig vandamál síðar meir á efnahagsreikningum þeirra sem það þola illa. Vaxtabætur koma aftur á móti í veg fyrir að vandinn vindi upp á sig inn í framtíðina og sumir geta haldið sér áfram í óverðtryggðum lánum.

Í fullkomnu kerfi værum við ekki með niðurgreiðslur á vaxtagreiðslum fólks til bankanna en kerfið okkar er ekki fullkomið. Stjórnvöld tala gjarnan um að þau vilja frekar eyða fjármagni í uppbyggingu húsnæðis til að auka framboð og draga þannig úr húsnæðisverðhækkunum en það er í fyrsta lagi langtímaverkefni sem verulega illa hefur gengið að koma af stað og á meðan eru ákveðin heimili í landinu í verulegum vandræðum. Í öðru lagi felur það í sér niðurlagningu á „skattafslætti“, sem vaxtabætur eru óneitanlega, til heimila eftir stöðu þeirra. Sömu stjórnvöld hafa heldur ekki viljað ýta undir lækkun á framkvæmdakostnaði á hagkvæmum íbúðum með því að fella niður virðisaukaskatt af slíkum byggingum, en sú aðgerð gæti einmitt ýtt undir uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum umfram aðrar. Það hefur ekki verið vilji til þess. Þess vegna spyr ég: Hvað ætla stjórnvöld að gera til skamms tíma til að halda aftur af verulegum launahækkunum eftir áramót? Umræðan hérna inni verður að taka mið af raunveruleikanum, ekki bara af fullkomnu hagfræðilíkani sem leitar í einhvers konar jafnvægi til langs tíma. Margir geta ekki beðið og ef fram heldur sem horfir birtast þessar kjarakröfur einfaldlega í kjaraviðræðum á komandi árum.

Virðulegi forseti. Það hefur mikið verið talað um þjóðarsátt í samhengi við verðbólgu í landinu, að við göngum í gegnum þetta saman. En eitt er víst, að þjóðarsátt mun aldrei nást á Íslandi meðan við búum við stjórnarfar þar sem ítrekað er gert lítið úr mikilvægum þáttum samtryggingar okkar. Umrætt skilningsleysi hefur m.a. komið fram í málflutningi formanns Framsóknarflokksins sem tók svo til orða í þinginu í lok síðasta mánaðar, aðspurður um viðhorf hans til þess að halda 5.000 heimilum hið minnsta í vaxtabótakerfinu, leyfi forseta:

„Það sem við erum að reyna að gera er að auka framboðið á húsnæði, reyna t.d. að setja fjármuni inn þar sem fólkið sjálft getur þá vonandi samið um hærri laun, sem þýðir að það þarf minni bætur en getur staðið í sjálfbæru samfélagi. Afleiðingin verður hins vegar sú sama: Fólk mun ráða við þá greiðslubyrði sem það er með en þarf ekki að lifa á bótum og bótahugsun frá ríkinu.“

Hér er alið á mjög neikvæðri merkingu bóta með notkun á orðinu „bótahugsun“, líkt og um skammaryrði sé að ræða. Þetta heyrist frá formanni Framsóknarflokksins þegar staðreyndin er sú að tilfærslu- eða „bótakerfin“ eru framúrstefnuleg hagstjórnartól sem hafa verið mikilvægur grunnur að sjálfbærri samvinnu ríkis, atvinnurekenda og launafólks í samningum um kaup og kjör á Norðurlöndum. Hugsunarhátturinn sem birtist þarna í orðræðu formanns Framsóknarflokksins útvistar í raun ábyrgðinni á efnahagskröggum til fyrirtækja. Formaðurinn telur eðlilegt að kjarabætur séu allar sóttar í vasa launagreiðenda og hefst þá hin þekkta víxlverkun launa og verðlags. Núverandi ríkisfjármálastefna hefur þannig skapað verulegan vanda meðal margra vel rekinna fyrirtækja í landinu. Skortur á öruggum velferðarramma og öflugum jöfnunartækjum sem taka mið af aðstæðum fólks eftir tímabilum í lífinu og bakgrunni þeirra hefur orðið til þess að fyrirtækin þurfa að bera með flötum hætti nær alla ábyrgð á hækkun á húsnæðisverði og kjararýrnun í landinu. Eðlilegra væri að stjórnvöld öxluðu ábyrgð á efnahagsóstjórninni og dreifðu byrðunum af kjarabótum um hagkerfið eftir svigrúmi hverju sinni.

Virðulegi forseti. Þriðji þátturinn, til viðbótar við launaþáttinn og húsnæðisstöðuna, sem er vert að staldra við í núverandi kjaraumhverfi er væntanlegar gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga. Það þarf að velta því upp með hvaða hætti sveitarfélög geta yfir höfuð verið ventill á verðlags- og launaþróun út frá þeirra rekstrarmódeli. Í stuttu máli er rekstur sveitarfélaga alls ólíkur rekstri ríkis að því leyti að launakostnaður er um tvöfaldur sem hlutfall af rekstri þeirra miðað við ríkið. Það þýðir að á tímum mikilla verðlags- og launahækkana verður reksturinn mjög fljótt fyrir áhrifum. Á sama tíma innheimta sveitarfélögin ekki virðisaukaskatt sem er sá skattstofn sem skilar hvað mestum hækkunum til ríkisins þegar verðbólga er til staðar og vinnur þar á móti öðrum hækkunum gjaldamegin hvað afkomu varðar. Vissulega skila fasteignamatshækkanir sér í tekjuhækkun hjá sveitarfélögum en að öðru leyti geta sveitarfélögin mjög lítið gert til að auka tekjur sínar nema með flötum hætti, og þetta þekkja allir hér inni sem hafa setið í sveitarstjórn. Svigrúmið er lítið sem ekkert, hámark er á útsvari sem má innheimta, sveitarfélögin fá ekkert vegna fjármagnstekna og geta ekki lagt á skatta eftir tekjustöðu fólks. Þá er langstærsti hluti útgjalda þeirra bundinn í lög sett af ríkinu. Við það bætist að málaflokkar sem hafa færst yfir á hendur sveitarfélaganna hafa verið illa fjármagnaðir og er málaflokkur fatlaðs fólks þar umfangsmestur hvað halla varðar. Núverandi fjárlagafrumvarp gerir vissulega ráð fyrir því að sveitarfélögunum verði bættir um 6 milljarða kr. á ársgrundvelli til að mæta þessari vanfjármögnun en uppsafnaður halli, sem sumir vilja meina að sé hátt í 50–60 milljarðar, er enn til staðar.

Halda mætti hér áfram í tilfelli annarra málaflokka, en ríkið getur einfaldlega ekki horft fram hjá því að þær flötu gjaldahækkanir sem sveitarfélögin boða víða í dag eiga líka uppruna sinn á borði ríkisins sem hefur stundað niðurskurð bakdyramegin og dregið lappirnar í endurskoðun tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Ríkisstjórnin hefur með þessum hætti sýnt rekstrarstöðu og ólíku eðli sveitarfélaga frá rekstri ríkisins mjög takmarkaðan skilning.

Forseti. Áður en ég fer yfir breytingartillögur okkar í Samfylkingunni sem birtast í nefndaráliti 2. minni hluta er ágætt að staldra við enn þá stærri mynd sem varðar vexti og verðlagsbreytingar. Þetta er umræða sem oft einkennir fjárlagaumræðuna; umfang útgjalda og tekna og hvar raunverulega er svigrúm til breytinga. Því er gjarnan haldið fram að útgjaldavöxtur hjá ríkinu hafi verið of mikill síðustu ár. Ljóst er af opinberum tölum um útgjöld ríkissjóðs að þau liggja nú í meðaltali síðustu 20 ára sem hlutfall af landsframleiðslu og fara lækkandi á tímabili fjármálaáætlunar, ef við lítum fram hjá árunum 2009–2011 og 2020–2021 þegar Covid skall á. Erfitt er því að halda fram að stórkostlegur útgjaldavandi sé til staðar í sjálfu sér. En óháð því hvort við teljum vöxtinn eðlilegan eða ekki þá hljótum við að velta því fyrir okkur hvaða ákvarðanir er verið að taka til að raunverulega hemja útgjaldavöxt til framtíðar og tryggja þannig stjórn á ríkisrekstrinum, því öll viljum við hér inni fara vel með peninga.

Kerfislægur útgjaldavöxtur virðist nefnilega skýra að nær öllu leyti þá útgjaldaaukningu sem á sér stað núna milli áranna 2023 og 2024. Fjármála- og efnahagsráðuneytið reiknaði út fyrir fjárlaganefnd hverjar „raunverulegar ákvarðanir“, eða það sem á ensku kallast, með leyfi forseta, „discretionary spending“, væru útgjaldamegin í frumvarpinu og kom þar fram að um 9 milljarða væri að ræða sem væru byggðir á slíkri „ákvörðun“. Annað fellur þá til vegna launa-, verðlags- og gengisbóta, fastra samninga, fólksfjölgunar í einhverjum tilvikum og lögbundinna hækkana. Af þessum 9 milljörðum nettó, sem eru sem sagt útgjöldin að teknu tilliti til aðhaldsráðstafana, voru reyndar 11 milljarðar plús megin vegna viðbótarverðbólgu sem mældist á yfirstandandi ári og þurfti að bæta við fjárlagagrunninn fyrir næsta ár. Í rauninni var því ekki um neinar nettóútgjaldaákvarðanir að ræða samkvæmt þessum mælikvarða frá fjármálaráðuneytinu sjálfu.

Tölurnar sem ráðherrar vitna gjarnan til þegar bent er á mikinn útgjaldavöxt stærstu málaflokka þeirra endurspegla ekki nema að takmörkuðu leyti aukna þjónustu og styrkingu málaflokkanna og sýna fyrst og fremst launakostnað og verðlagsbætur. Slæmur aðbúnaður starfsfólks, mikil innviðaskuld og veik tilfærslukerfi hafa þannig skilað sér í hærri launakröfum og verðbótum á öllum sviðum hjá ríkinu. Því til stuðnings má benda á að umræddar launa-, verðlags- og gengisbreytingar í fjárlagafrumvarpinu í ár nema 68 milljörðum og skýra um 65% af aukningu rammasettra útgjalda í frumvarpinu. Helmingur útgjaldaaukningarinnar í fjárlagafrumvarpinu í heild á milli ára er vegna umræddra verðbreytinga sem koma fyrst og fremst til vegna efnahagsóstjórnar í landinu.

Þegar þetta er raunin hlýtur sú spurning að vakna hvernig megi koma í veg fyrir undirliggjandi og kerfislægan vöxt í útgjöldum og nýta fjármagn frekar til að bæta þjónustu. Vandinn er sá að til að spara pening þarf stundum að eyða honum. Það þarf að fjárfesta í skipulagi á betur reknum kerfum í þágu þjóðar. Þetta er staðan, algerlega óháð því hvaða skoðun fólk hefur á því hvort útgjaldahlutfallið eigi að vera svona eða hinsegin til lengri tíma. Í staðinn er bara haldið hér áfram, fjárlög eftir fjárlög, á braut flats óskipulagðs niðurskurðar sem ýtir undir rekstrarkostnað til lengri tíma og heldur vítahringnum gangandi.

Talandi um flatt og stefnulaust aðhald þá liggur alveg fyrir að eina leiðin til að reka almannaþjónustu í landinu með skilvirkari hætti, sem flestir flokkar hér inni tala nú fyrir, og hægja þannig á þessum undirliggjandi útgjaldavexti er að fjárfesta skipulega í hagræðingu. Sú stefna sem hefur verið stunduð hér undanfarinn áratug, sem felst í að ráðast í flatar aðhaldskröfur á málaflokka, hefur rúið margar stofnanir inn að skinni og verulega dregið úr getu þeirra til að fjárfesta í hagkvæmari rekstri til lengri tíma. Við verðum að horfast í augu við það að eftir áratug af uppsafnaðri innviðaskuld upp á hundruð milljarða króna þarf þjóðarátak í að fjárfesta í almannaþjónustu og innviðum til að forðast það að þessi kerfislægi vöxtur vindi upp á sig.

Ég legg áherslu á að í nefndaráliti mínu má finna fjölda slíkra dæma og raunar er í áliti meiri hlutans farið yfir fjölda slíkra dæma, ef svo má segja.

Forseti. Hvað varðar tekjuhliðina þá þurfum við auðvitað að viðurkenna að til skamms tíma þarf að leggja meira fjármagn í fjárfestingu, skipulagsbreytingar og verja reksturinn svo við getum rofið þennan vítahring, og þar komum við að tekjunum. Svona aðstæður þekkja flestir þeirra sem standa í fyrirtækjarekstri, að það þurfi að fjárfesta í umbótum, en það hefur ekkert svigrúm verið til slíkra athafna á tímum þessarar ríkisstjórnar. Það er ekki vegna sífelldra krísa sem hafa dunið á heldur vegna meðvitaðra ákvarðana af pólitískum toga sem eiga rætur sínar að rekja til frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins, stjórnmálastefnu sem bæði forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins kvitta gagnrýnislaust upp á.

Í þessu samhengi er áhugavert að vitna til umsagnar fjármálaráðs, óháðs utanaðkomandi aðila sem rýnir fjármálaáætlun, um fjármálaáætlun í fyrravor þar sem kom fram að hlutfall heildartekna ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu á áætlunartímabilinu yrði enn vel undir meðaltali áranna 1998–2021. Sögulegt meðaltal tekna ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu fyrir þetta tímabil, 1998–2021, leiðrétt fyrir einskiptisliðum, er 30,4%. Nýjasta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 byggir á sýnir svart á hvítu að tekjuáætlun er undir því meðaltali allt tímabilið 2024–2028.

Fjármálaráð tekur líka fram í umræddri umsögn að hlutdeild aldraða, þ.e. 67 ára og eldri, af heildarmannfjölda hafi aukist verulega á umræddu tímabili, 1998–2021, og samfélagsgerðin hafi einnig breyst sem fylgi aðrar samfélagslegu kröfur og viðmið. Því ætti frekar ef eitthvað er að vera þrýstingur á tekjuöflun til að mæta útgjaldaþróun en tekjuskerðingu. Það er ljóst að ef tekjur haldast áfram undir sögulegu meðaltali, eins og sú fjármálaáætlun sem þessi fjárlög byggja á, verður meiri pressa á að halda útgjöldum lægri og úr því gati verður einfaldlega ekki dregið nema með frekari rýrnun grunnþjónustu á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess sem ég fór yfir áðan um á hverju útgjaldavöxturinn hefur hingað til verið byggður sem eru fyrst og fremst verðlags- og launabætur. Það er ekkert svigrúm eftir í almennri þjónustu en til annars að bara skerða.

Eftir tekjulækkunarhrinu á árunum 2013–2016 bætti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur enn meira í og fjarlægði rúmlega 40 milljarða úr tekjugrunni ríkissjóðs á ársgrundvelli með skatta- og gjaldalækkunum, sem væri gott og vel ef þær hefðu ekki allar verið ófjármagnaðar. Fjármálaráð gerði einmitt þessa tekjulækkun að umtalsefni í fyrrnefndri rýni sinni á fjármálaáætlun í fyrra.

Mig langar í þessu samhengi, áður en ég fer yfir í breytingartillögur, að tala aðeins um þessa tekjurýrnun og skuldir kynslóðanna, afkomu ríkisins og stöðu innviða í landinu. Hér er ekki ætlunin að halda því fram að allur þessi tekjuauki sem fór út úr kerfinu okkar með umræddum lækkunum hefði annars átt að renna óskertur til ríkisins en ég bið ykkur að fara með mér í ferðalag í huganum og velta því fyrir ykkur í hvað þessir fjármunir hefðu frekar getað farið. Við erum með gífurlega innviðaskuld sem hefur ekki tekist að vinna upp, bæði sökum skorts á fjármagni en líka vegna þenslu sem einmitt tekjuauki myndi vinna á móti. Það er nefnilega aldrei rætt hér inni þegar það á að beina aðhaldi að tekjulægsta og eignaminnsta fólkinu í landinu, sem má núna ekki fá vaxtabætur á næsta ári, 5.000 heimili, um þá þenslu sem það olli líka að fara í ófjármagnaðar skattbreytingar í staðinn fyrir að a.m.k. fjármagna þær skipulega út frá þeim tekjustofnum þar sem svigrúm var. Það hefði verið hægt að setja þetta fjármagn eitthvert annað og þess vegna vekur þessi forgangsröðun óneitanlega upp spurningar. Ég ætla að taka eitt dæmi: Fjárfestingarátakið svokallaða, sem átti að taka við á tímum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og var í raun eitt aðalerindi hennar auk efnahagslegs stöðugleika — sem hefur auðvitað ekki ræst úr — hefur ekki náð að koma fjárfestingu ríkissjóðs upp í sögulegt meðaltal sem hlutfall af landsframleiðslu nema í eitt ár. Það var árið 2021 þegar hagkerfið var í sögulegri lægð vegna Covid og landsframleiðslan hrundi. Það var ekki vegna þess að fjárfestingin var orðin svo mikil. Ef miðað er við að fjárfesting hefði haldist í sögulegu meðaltali, þ.e. 2,5% af landsframleiðslu, sem er ekki fjarri alþjóðlegum viðmiðum í fjárfestingu ríkja, hefði þurft að fjárfesta fyrir rúmlega 230 milljarða á verðlagi ársins í ár til að bæta upp tapið í ládeyðunni á árunum eftir fjármálakreppuna. 230 milljarðar eru kannski um átta ár af því 40 milljarða tekjutapi sem fólst í ófjármögnuðum skattalækkunum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Á þennan mælikvarða hefði ríkisstjórn hennar því getað lokað innviðagatinu á tveimur kjörtímabilum ef hún hefði ekki rýrt tekjurnar í upphafi tímabils.

Forseti Ég ætla núna að fara yfir kjarapakka 2. minni hluta sem eru sem sagt breytingartillögur okkar í Samfylkingunni við þessi fjárlög þar sem meginútgangspunkturinn er að vinna bug á verðbólgunni og milda efnahagshöggið fyrir heimilin. Þessar breytingartillögur eru fyrst og fremst lagðar fram til að sýna að það er önnur forgangsröðun til staðar sem má beita sér fyrir strax um áramótin án mikils flækjustigs. Hér er ekki ætlunin að taka yfir stefnu stjórnvalda enda er langtímasýnin bundin í stjórnarsáttmála og fjármálaáætlun og meðfylgjandi lagasetningu og það væri í raun frekar erfitt að ætla að taka þetta allt saman í fangið. Það væri þó óábyrgt af okkur að vekja ekki athygli á mikilvægum aðgerðum sem hægt væri að ráðast í til að aftra frekari vaxtahækkunum. Alþingi getur nefnilega gegnt lykilhlutverki í að draga úr verðbólguþrýstingi með fjármögnun á núverandi úrræðum, m.a. viðbótarkostnaði vegna jarðhræringa í Grindavík sem stjórnvöld virðast ekki ætla að fjármagna. Að sama skapi eru lögð til fjármögnuð úrræði sem milda höggið fyrir heimilin í landinu og geta þar með dregið úr launaþrýstingi á komandi ári, þrýstingi á um 25–30% af heildarútgjöldum ríkissjóðs.

Þessar tillögur eru lagðar fram til að gefa Alþingi tækifæri til að sýna að þingheimur taki þessa stöðu alvarlega og því höfum við fjármögnun útgjalda tvöfalda, til að stuðla að frekara aðhaldi og þar með snúa við vaxtahækkunum og bæta ráðstöfunartekjur heimilanna.

Ég ætla að byrja á að tala um beinar kjarabætur til heimilanna og stöðu ungra bænda í því samhengi. Við fögnum því auðvitað í Samfylkingunni að við sjáum auknar fjárveitingar til stofnframlaga í almenna íbúðakerfinu en við erum líka meðvituð um að slík uppbygging tekur tíma og hefur reynst erfið. Í ljósi ofangreindrar umfjöllunar um stöðu heimilanna og tilfærslukerfanna er þess vegna nauðsynlegt að bregðast við aukinni kostnaðarbyrði heimilanna, sér í lagi yngra og tekjulægra fólks, með því að styrkja vaxtabótakerfið. Við leggjum þess vegna til að ígildi 10.000 heimila verði hleypt inn í vaxtabótakerfið í stað þess að 5.000 heimili séu skert út úr kerfinu til að spara ríkissjóði og auka aðhald á eignaminnsta og tekjulægsta fólkið í landinu núna á milli ára. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga á hverjum meiri hlutinn ætlar að spara umræddar 700 millj. kr. Frá því að síðustu fjárlög voru samþykkt hafa vextir hækkað um 50%, úr 6% í 9%, og þess vegna leggjum við til að svigrúm til greiðslu vaxtabóta hækki um 50%. Það þarf að sjálfsögðu að hreyfa og uppfæra eignaskerðingarmörkin til að taka mið af breyttu fasteignamati svo þessi fjárheimild rati nú einu sinni út, en það þekkjum við sögulega að hefur ekki gerst.

Tekjutíundirnar fyrir neðan eru auðvitað í ríkari mæli á leigumarkaði og þess vegna teljum við mikilvægt að styðja við þá aðila með hærri húsnæðisbótum og tímabundinni bremsu á hækkun leiguverðs eins og hefur verið gert í Danmörku. Í breytingartillögum við fjárlagafrumvarp það sem um ræðir leggjum við til að fjárheimild til húsnæðisbóta verði hækkuð um 1 milljarð umfram þá tillögu sem er hér frá ríkisstjórninni, vegna þess að sú tillaga ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir að lækka fjárheimild milli ára úr 9,5 milljörðum í 9 milljarða. Með þessari breytingartillögu okkar er í það minnsta gert ráð fyrir að fjárheimildin taki mið af hækkun leiguverðs það sem af er ári. Við vitum að húsnæðisbætur hafa á undanförnum árum ekki fylgt leiguverðshækkun, en bæturnar stóðu óhreyfðar frá árinu 2017 og fram á mitt síðasta ár. Síðan þá hefur ríkisstjórnin tvisvar sinnum hækkað húsnæðisbætur, sem ber að fagna, alls um 21%, en yfir umrætt tímabil hefur leiguverð hækkað að meðaltali um þriðjung.

Þá vill 2. minni hluti líka að það verði komið til móts við stöðu ungra og skuldsettra bænda í landinu í ljósi mikilla vaxtahækkana. Ég tel augljóst að það þurfi að endurskoða stuðning við bændur til lengri tíma, eins og stendur alltaf til, en líkt og gildir um önnur langtímaúrræði sem hér eru rædd, hvort sem það er uppbygging húsnæðis eða annað, er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin grípi inn í til að koma í veg fyrir að núverandi efnahagsaðstæður hafi langvarandi og ófyrirséð eða óæskileg áhrif á stöðu greinarinnar. Því leggjum við til að 2 milljörðum verði varið í sérstakar vaxtabætur til bænda sem verði útfærðar til að ná til ungra bænda með þyngstu vaxtabyrðina. Slík aðgerð getur reynst mikilvæg verðbólguaðgerð ef hún er rétt útfærð, eins og í tilviki vaxtabótanna í aðdraganda kjarasamninga, ef hún kemur í veg fyrir mikinn verðþrýsting í gegnum afurðaverð. Þeir sem sýna slíkum bótum skilning ættu því líka að sýna vaxtabótum skilning, vegna þess að í mörgu er um hið sama að ræða.

Þá leggjum við til að styrkja framboðshliðina og kannski auka líkurnar á því að stofnframlögin rati út og haldi leiguverði á almennum íbúðum lægra með því að endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu manna við nýbyggingu almennra íbúða verði 60%, eins og var fyrir lagabreytingu síðasta vor. Þessi breyting er til að styðja við óhagnaðardrifin leigufélög og viðhalda hvata til byggingar leiguíbúða á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda. Þar erum við að tala um námsmenn, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði, m.a. sökum félagslegra aðstæðna. Ætlum við að láta breytingartillögu þess efnis fylgja fjárlagabandorminum.

Ég vil í þessu samhengi vekja athygli þingheims á minnisblaði Bjargs íbúðafélags til þjóðhagsráðs frá því í nóvember síðastliðnum þar sem er vakin athygli á nákvæmlega þessu úrræði. Þar er minnst á að þar sem stofnframlög eru einungis 30% af stofnkostnaði íbúða leggist kostnaðaraukinn af afnámi endurgreiðslu virðisaukaskatts að fullu á þau 70% sem eftir standa. Enn fremur segir í minnisblaðinu að breytingin sem stjórnarliðar samþykktu hér í vor hafi haft mikil áhrif á áður samþykkt verkefni þar sem ekki hafi fengist leiðrétting á samþykktum stofnframlögum og dæmi séu um kostnaðarhækkun sem nemi andvirði heillar íbúðar í 60 íbúða verkefni, kostnaður sem leggist beint á leigutaka.

Hér er tækifæri fyrir stjórnarmeirihlutann til að samþykkja þessa breytingartillögu og tryggja að leiguverð haldist hagkvæmara en ella og koma þá kannski í frekari mæli stofnframlögunum út, sem hefur reynst erfitt að gera í sumum tilvikum. Við gerum ráð fyrir því að kostnaður sem komi til vegna þessa gæti numið um 1 milljarði kr. og þess vegna teljum við að heildarkostnaður úrræðanna sem eru í þessum kjarapakka sé í kringum 6 milljarðar kr.

Ég ætla ekki að fara í smáatriðum yfir athugasemdir okkar um Airbnb en legg áherslu á að við viljum að Airbnb verði tekið til skoðunar á nýju ári og sérstaklega að lagst verði yfir möguleikann á breytingum á regluverki í kringum skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis og erum við þá aðallega að líta til atvinnustarfsemi þar í kring, ekkert endilega þar sem fólk er með lögheimili.

Að lokum ætla ég að fara fyrir fjármögnun þessara úrræða vegna þess að það er auðvitað gríðarlega mikilvægt á tímum sem þessum að leggja fram fjármögnun ef við ætlum að verja kjör heimilanna í landinu. Við þurfum auðvitað að mæta húsnæðisverðbólgunni með vaxtabótum og húsnæðisbótum en þetta þarf allt saman að fjármagna. Ég þarf ekkert að fara ítarlega yfir þessar fjármögnunartillögur, þótt ég geti svarað spurningum ef það er mikil stemning fyrir því hér inni, en vek athygli á því að þetta er í takt við það sem við höfum áður lagt fram en var ekki vilji til að taka undir, þ.m.t. hækkun fjármagnstekjuskatts úr 22% í 25%. Ég vek athygli þingheims á því að þessi hækkun samkvæmt útreikningum fjármálaráðuneytisins leggst nær einvörðungu á tekjuhæstu tíundina í landinu. Og rifjum þá aðeins upp það sem ég sagði fyrr í þessari löngu ræðu; tekjuhæsta tíundin í landinu erfði einmitt börnin sín fyrir fram að 49 milljörðum kr. það sem af er þessu ári, sem eru um 70% af öllum fyrirframgreiddum arfi í landinu.

Síðan leggjum við líka til að það verði farið í að hækka veiðigjald á stórútgerðina. Það er bæði hægt að gera með því að hækka prósentuna en líka með því að taka til baka breytingar sem voru gerðar á tíma þessarar ríkisstjórnar þar sem ákveðnir liðir á gjaldinu voru gerðir frádráttarbærir. Þeim sem finnst ekki vera svigrúm til þess vil ég benda á að það hafa verið gríðarlega hagfelldar ytri aðstæður fyrir útgerðina, frábær loðnutíð. Við auðvitað gleðjumst verulega yfir því að það gangi vel í sjávarútvegi, við gerum það öll en undir þessum kringumstæðum, þar sem erlent verðlag, húsnæðisverðbólga o.fl. er að lenda verulega í fangi á venjulegum heimilum og það er gerð krafa til að mynda um að 5.000 heimil taki á sig 700 millj. kr. aðhald til þess að taka ábyrgð á ástandinu, þá veltir maður því fyrir sér hvort ekki megi mögulega skoða þessa verulegu umframarðsemi sem hefur skapast, m.a. af sömu ástæðum og heimilin eru með verðbólgu í fanginu en líka vegna kerfisbreytinga sem voru gerðir hér á árum áður á kvótakerfinu til að tryggja arðsemi í greininni. Maður veltir fyrir sér hvort það megi ekki dempa aðeins höggið sem fellur núna á heimilin og deila þessu aðeins niður, eins ósanngjarnt og sumum kann að finnast það hér inni.

Við viljum líka að það sé skoðað í þessu samhengi að fara til baka með bankaskattinn. Fyrir því eru frekar einfaldar ástæður. Hæstv. viðskiptaráðherra Lilja Alfreðsdóttir hefur sjálf lýst því yfir að umrædd bankaskattslækkun hafi ekki skilað sér til neytenda sem var forsendan fyrir þessari lækkun á sínum tíma. Hér vísa ég aftur til svigrúms og höfða til ábyrgðar í núverandi stöðu og hvar eðlilegt er að tekið sé af svigrúmi.

Þá vil ég nefna að lokum hið svokallaða ehf.-gat, sem hefur verið margumreiknað. Ríkið verður af tekjum vegna þess að ákveðnir einstaklingar, ekki margir en ákveðnir einstaklingar, forðast að greiða launaskatt og borga í staðinn fjármagnstekjuskatt af launatekjum sínum. Það gerir það að verkum að hið opinbera varð af árið 2021 um 3–8 milljörðum. Ef við uppfærum þetta miðað við tekjuskattsinnheimtu sem hefur orðið síðan eru þetta líklega á bilinu 5–13 milljarðar í dag, þannig að við bætum þarna við 8 milljörðum í breytingartillögum okkar. Þetta er ekki skattahækkun, virðulegi forseti, þetta er skattaglufa sem fólk er að misnota. Það er ekkert eðlilegt við þessa misnotkun, en alls eru þetta um 24 milljarðar kr.

Ég fór í upphafi yfir mikilvægi þess að við fjármögnum Grindavíkuraðgerðir og þess vegna höldum við til hliðar 6 milljörðum af þessari upphæð, til að fjármagna Grindavík. Þar erum við með 6 milljarða í útgjöld, 6 milljarða í Grindavík, alls 12 milljarðar, en alls 24 milljarða í tekjuinnheimtu til að sýna ábyrgð á tímum sem þessum og auka aðhaldið verulega.

Ég ætla að stöðva umfjöllunina. Ég gæti talað lengi áfram um ákveðin málefnasvið en grunar að ég fái spurningar tengdar því.