154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:55]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir sína ræðu. Tíminn er naumur þannig að það er erfitt að fara á dýptina eins og ég hef áður sagt. Mér þótti áhugavert þegar þingmaðurinn nefndi hérna sveitarfélögin og þar er það þá aðallega tvennt: Verk- og tekjuskipting sveitarfélaganna og hvaða skoðun þingmaðurinn hefur á því; og annað sem ég held að muni skipta máli í komandi kjarasamningum sem eru gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga og hvaða skoðun þingmaðurinn hefur á því. Hvaða sýn tekur hún á það hvernig sveitarfélögin eiga að snúa sér í þeirri baráttu allri saman? Ég hefði áhuga á að heyra frá þingmanninum um þessa verk- og tekjuskiptingu. Það hafa auðvitað farið verkefni á milli eins og við þekkjum, grunnskólinn, málefni fatlaðs fólks o.s.frv. Hvar sér þingmaðurinn fyrir sér að hægt sé að ná í auknar tekjur eða bæta við tekjustofnum? Eða er þingmaðurinn á þeirri skoðun að það eigi einhver verkefni að fara til baka og þá hvaða verkefni?