154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli í þessu samhengi að mér skilst, nema það hafi farið fram hjá mér, að Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið sem hafi samið við ríkið um í rauninni svona framtíðarsýn í veitingu lóða sérstaklega til slíkrar uppbyggingar. Ég er ekki með það í kollinum nákvæmlega hvar slíkar lóðir gætu verið en vissulega átta ég mig alveg á því að það má ræða til að mynda Úlfarsárdal og fleiri svæði, þar hefur verið rætt um hvort það eigi að breyta eitthvað mörkunum. Ég segi þetta með fyrirvara um að ég veit að það eru aðrir þættir á bak við þetta. En auðvitað er allt undir í svona umræðu, ég viðurkenni það. Ég vil samt vekja sérstaklega athygli á einu, óháð lóðastöðunni, því ég átti mjög áhugavert samtal við Fjarðabyggð á sínum tíma þar sem þau bentu á mikilvægi, af því að það er alltaf verið að tala um aðrar íbúðir en í almenna íbúðakerfinu, á mikilvægi stofnframlaga og uppbyggingar almenna íbúðakerfisins til þess að halda byggingarverktökum á svæðinu virkum. Helsta vandamálið líka í uppbyggingarkostnaði á Íslandi hefur verið þetta flökt og efnahags- og afkomustaða byggingarverktaka. Þau sjá það sem hlutverk sitt að vernda stöðu þessara verktaka og verkefnastöðu svo þeir geti sinnt líka hinum markaðnum.