154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þegar talið berst að grunnorsökum verðbólgunnar þá held ég að það verði að telja nokkra hluti til. Það eru ríkisútgjöldin og það sem er ekki hægt að kalla neitt annað en stjórnlausan vöxt þeirra undanfarin ár. Það er peningaprentunin sem átti sér stað hérna í gegnum Covid-tímabilið sem myndaði þennan falska kaupmáttarauka sem við erum nú að bíta úr nálinni með þeirri verðbólgu sem hér hefur verið ansi þrálát. Stríðið í Úkraínu var nefnt. Staðreyndin er sú að flestar hrávöruvísitölur eru komnar niður fyrir það gildi sem þær voru í þegar stríðið braust þar út á sínum tíma þannig að þeir aðilar sem hækkuðu verð á grundvelli þeirra verðbreytinga á hrávörumörkuðum verða auðvitað að líta í eigin barm og leggja sitt af mörkum hvað það varðar að aðlaga verðskrár frá því sem nú er að raunverulegri kostnaðarverðsþróun á mörkuðunum úti.

Hv. þingmaðurinn spyr um ferðaþjónustuna. Ég held að það hafi alltaf blasað við að ferðaþjónustan myndi taka hratt við sér þegar heimsfaraldurinn væri um garð genginn. Í því samhengi að ferðaþjónustan sé hér í lægra virðisaukaskattsþrepi heldur en því hærra þá þarf það líka að skoðast í samhengi. Ferðaþjónustan er útflutningsatvinnugrein þó að hún sé rekin hér á Íslandi að fullu, fyrir utan auðvitað hluta starfsemi flugfélaganna, og við verðum að skoða það í samhengi hvernig sá markaður spilar saman við samkeppnismarkaði erlendis. Ég tel óráðlegt og er almennt þeirrar skoðunar að það eigi að ganga hægt um gleðinnar dyr þegar kemur að skattahækkunum og hækkunum á (Forseti hringir.) virðisaukaskattshlutföllum, en ég er ekki tilbúinn (Forseti hringir.) að taka undir að 11% virðisaukaskattur á ferðaþjónustu sé meginorsakavaldur í þessum efnum.