154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:11]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka andsvarið. Ég styð allar þær aðgerðir sem líklegar eru til að hjálpa okkur við að ná stjórn á útlendingamálunum, landamærunum, kostnaðinum við þjónustu á meðan beðið er úrlausnar mála og þar fram eftir götunum. Ég hef gagnrýnt mjög harkalega þá nálgun ríkisstjórnarinnar að grauta saman vinnumarkaðsmálum og verndarkerfismálum. Eitt dæmi í þessum efnum er sameining Fjölmenningarseturs og Vinnumálastofnunar. Mér þótti það afleit ákvörðun — afleit ákvörðun. Við erum með verndarkerfið. Það hefur sínu hlutverki að gegna og það má færa rök fyrir því að það sé orðið ansi krambúlerað. Síðan hinum megin höfum við vinnumarkaðsúrræðin sem gegna sínu hlutverki og tryggja m.a. að þær vinnandi hendur (Forseti hringir.) geti komið hingað til lands sem þörf er á. Við eigum ekki að grauta þessu saman. (Forseti hringir.) Þau atriði sem snúa að þessu eru nú ekki stóru tölurnar í heildarmyndinni en engu að síður finnst mér það sem ég sé hérna (Forseti hringir.) skynsamlegt og gott og tel ekki ólíklegt að ég komi inn á það þegar ég kem að bls. 17 síðar í ræðum mínum.