138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

tillögur starfshóps um heilbrigðismál.

[11:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að það er þingið sem hefur fjárveitingavaldið og það er þingið sem ákveður þess vegna hvaða fjármunum er ráðstafað m.a. til kragasjúkrahúsanna og Landspítala – háskólasjúkrahúss. Við munum ræða síðar í dag tillögur fjárlaganefndar til breytinga á því frumvarpi sem fyrir liggur og það mun væntanlega koma þar fram, sem kemur ekki á óvart, að það eru óverulegar breytingar á milli umræðna.

Hv. þingmaður talar um flatan niðurskurð á þessu ári og á því næsta. Ég vil vekja athygli á því að miðað er við 5% niðurskurð í eiginlegri heilbrigðisþjónustu á næsta ári … (GÞÞ: Flatur.) — Nei, alls ekki flatur, en 10% í stjórnsýslunni og til merkis um að hér er ekki um flatan niðurskurð að ræða vil ég benda á að það er 2,8% niðurskurður í heilsugæslunni, sem þýðir auðvitað (GÞÞ: Flatur.) að það er meiri niðurskurður á öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar. (GÞÞ: Flatur.) Flatur, tönnlast hv. þingmaður á. (Forseti hringir.) Ramminn er að sjálfsögðu flatur, 2,8% yfir öll heilsugæslusvið á landinu en, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) þetta er meðaltal og niðurstaða sem er ekki hægt (Forseti hringir.) að túlka sem flatan niðurskurð. Það eru öfugmæli.