138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta greinargerð og sérstaklega því sem sneri að tekjuhliðinni, ég veit að hann er vel inni í þeim málum.

Mig langaði hins vegar og ætlaði að koma upp til að bera af mér sakir því að samkvæmt því sem hv. þingmaður sagði hér og hefur farið mikinn í fjölmiðlum undanfarna daga, er sá sem hér stendur ásamt 10 öðrum fjárlaganefndarmönnum svokallaðir holdgervingar spillingar ef lesa á út úr því hvernig hann hefur fjallað hér um ýmsa liði.

Hann hefur réttilega komið inn á margt er varðar úthlutun safnliða sem fjárlaganefnd hefur á sínu borði. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þegar farið er að skoða þetta og ef við tökum nokkur dæmi, ég get nefnt það sem hann talar um að sé hrein og klár spilling og að verið sé að moka fjármagni úr ríkissjóði í gæluverkefni heima í héraði, það eru verkefni eins og Gásar í Eyjafjarðarsveit, Selasetur á Hvammstanga, Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal, Þjóðtrúarstofa á Hólmavík, byggðasöfnin um allt land og sjóminjasöfnin um allt land. Þetta eru verkefni sem hljóta stuðning af svokölluðum safnliðum og mörg þessara verkefna eru að taka á sig mun stærri niðurskurð en til að mynda söfn og annað sem er á höfuðborgarsvæðinu og út um land með fasta samninga. Ég er ekki mótfallinn því að skoða þetta kerfi allt en mér finnst svolítið langt gengið þegar hv. þingmaður kemur hér upp og talar um að öll þessi góðu verkefni vítt og breitt um landið séu einungis gæluverkefni og til þess fallin að kaupa atkvæði úti í hinum dreifðu byggðum.