138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:58]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gaf í skyn að ég teldi að allt væri öðrum að kenna en núverandi ríkisstjórn varðandi efnahagsmál hér á landi. (Gripið fram í: Æ oftar.) Já, æ oftar gjammar hv. þingmaður fram í fyrir mér og nýtur þess að vera í andstöðunni í dag. Ég held að við getum fært ágætisrök fyrir því, virðulegi forseti, að flest það sem aflaga fór hafi verið fyrri ríkisstjórnum að kenna en ekki þeirri sem glímir við vandann nú. Ég held að við getum verið sæmilega sátt um það, ef við lítum yfir farinn veg, hverjir beri þar mesta ábyrgð þó að menn reyni auðvitað að koma sér undan því eins og hv. þingmaður reyndi svo fimlega hér áðan.

Í ræðu formanns fjárlaganefndar fyrr í dag, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, kom fram að fjárlaganefnd hefur haldið tugi funda á undanförnum vikum um gerð fjárlagafrumvarpsins. Fjárlaganefnd hefur tekið á móti hundruðum gesta og erinda við gerð fjárlagafrumvarpsins. Umræða um ríkisfjármálin og fjármálagerðina hefur tekið vikur og mánuði í vinnslu bæði á þingi, í nefndum þingsins og víðar í stjórnkerfinu. Ég blæs því á rök hv. þm. Péturs H. Blöndals um að fáir hafi fengið að koma að verkinu.

Hvers vegna er Icesave-skuldbindingin ekki færð til bókar í þessu frumvarpi? Það er vegna þess að hún er ekki orðin virk. Hv. þingmaður hefur ekki haft dug í sér til að samþykkja frumvarpið um ríkisábyrgðina á Icesave-samningunum. Hefði það verið gert væri ábyrgðin orðin virk og þá væri þetta fært hér til bókar. Eins og formaður fjárlaganefndar sagði í ræðu sinni hér í morgun verður það gert og það er þegar komið á hreint hvernig með þau mál verður farið.