138. löggjafarþing — 43. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[00:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að sá sem hér stendur var búinn að ákveða þetta í sinni ráðherratíð. Ástæðan fyrir því að það gerðist ekki var að nýr ráðherra kom inn. Það er bara svo einfalt. (Heilbrrh.: En mótmælin …?) Margar erfiðar ákvarðanir voru teknar í heilbrigðisráðuneytinu í minni tíð og sem betur fer skiluðu þær sér allar. Biðlistarnir hurfu ekki af sjálfu sér, lyfjakostnaður lækkaði ekki af sjálfu sér og ef menn halda að því hafi ekki verið mótmælt þegar það var gert er það mikill misskilningur. Ef menn halda að það hafi verið pólitískt sársaukalaust að setja faglega stjórn á Landspítalann er það mikill misskilningur.

Hér eru engin rök og engin svör við spurningum mínum. Ég spurði hæstv. ráðherra hvað hefði breyst, af hverju hún hefði skipt um skoðun. Það hefur ekkert komið fram. Það er ekki rétt að þetta sé ekki í hendi, þetta er í hendi og meira að segja 1.400 millj. kr. þrátt fyrir lækkunina vegna þess að það er mikið inni í þeim þáttum sem á eftir að reikna. En segjum að það væri bara milljarður, það er ekki lítið.

Varðandi rökin, förum yfir þau varðandi flutninginn. Ellin ekki sjúkdómavædd? Það hefur bara ekkert með hjúkrunarheimili að gera, það er enginn á hjúkrunarheimili nema hann sé veikur og það er bæði eldra og yngra fólk.

Yfir til sveitarfélaga? Félagsmálaráðuneytið er ekkert ráðuneyti sveitarstjórnarmála, það er samgönguráðuneytið. Það er alveg hægt að færa þessa hluti beint yfir til sveitarfélaganna ef menn vilja. Ég fór með heimahjúkrunina yfir til sveitarfélagsins og samningar voru gerðir við Akureyri og Höfn í Hornafirði löngu fyrir mína tíð.

Sameina félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti? Ef það er að gerast er þá bara ekki skynsamlegast að bíða eftir þessu?

Þetta snýst um það að hæstv. ráðherra hefur gefið eftir (Forseti hringir.) í þessu máli og það er mjög alvarlegt að heyra að heilbrigðisráðherra, sama hver það er, sætti sig við að heilbrigðisþjónusta fari í eitthvert ráðuneyti. Það er mjög alvarlegt og mun hafa alvarlegar afleiðingar.